Fótbolti

Messi kom að sínu þúsundasta marki og tryggði Argentínu sigurinn í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi fagnar sigurmarki sínu með argentínska landsliðinu í nótt.
Lionel Messi fagnar sigurmarki sínu með argentínska landsliðinu í nótt. AP/Agustin Marcarian

Lionel Messi var enn á ný hetja argentínska landsliðsins í nótt þegar hann skoraði eina markið í sigri í fyrsta leik Argentínu í undankeppni HM 2022.

Lionel Messi tryggði Argentínumönnum 1-0 sigur á Ekvador á heimavelli í undankeppni HM í nótt.

Sigurmark Messi kom strax á tólftu mínútu leiksins og úr vítaspyrnu sem Lucas Ocampos, leikmaður Sevilla, fiskaði.

„Það var mikilvægt að byrja á sigri af því að við vitum hversu erfið þessi undankeppni er og allir leikir eiga eftir að vera eins erfiðir og þessi,“ sagði Lionel Messi eftir leikinn.

„Við vorum að vonast eftir því að liðið spilaði betur en það er næstum því liðið eitt ár síðan við spiluðum síðast saman. Þetta var fyrsti leikurinn og stressið flækti líka hlutina,“ sagði Messi.

Markið hans var það þúsundasta sem Messi sem með beinum hætti að á ferli sínum með Barcelona og argentínska landsliðinu eins og sést á tísti frá spænska tölfræðinginum Alexis Martín-Tamayo hér fyrir ofan.

Messi er kominn með 71 mark og 40 stoðsendingar fyrir argentínska landsliðið og er síðan með 634 mörk og 255 stoðsendingar fyrir Barcelona. Samtals hefur hann því skorað 705 mörk og gefið 295 stoðsendingar á ferlinum.

Góðvinur Messi, Luis Suarez, skoraði fyrir Úrúgvæ í 2-1 sigri á Síle en sigurmarkið skoraði varamaðurinn Maxi Gomez í uppbótartíma leiksins. Suarez skoraði fyrsta mark leiksins úr vítaspyrnu sem Varsjáin gaf en Alexis Sanchez jafnaði metin fyrir Síle.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×