Elías Már Ómarsson var á skotskónum er Excelsior gerði 1-1 jafntefli við Eindhoven á útivelli í hollensku B-deildinni í kvöld.
Excelsior hefur ekki hafið tímabilið sem skildi og þurfti á sigri í kvöld til að setja pressu á liðin fyrir ofan sig. Tvö lið fara beint upp úr B-deildinni og önnur sex fara í umspil.
Lið Excelsior varð fyrir áfalli undir lok fyrri hálfleiks þegar Mats Wieffer fékk rautt spjald og gestirnir þurftu að leika nærri 50 mínútur manni færri. Staðan þó enn markalaus í hálfleik. Það var svo þegar rúmur klukkutími var liðinn sem Elías Már skoraði og kom Excelsior yfir.
Hans áttunda mark í sjö leikjum til þessa í deildinni.
Heimamenn jöfnuðu hins vegar metin á 76. mínútu og þar við sat, lokatölur 1-1.
Excelsior er í 11. sæti af 20 með sjö stig þegar sjö umferðir eru búnar. Liðið er þó aðeins tveimur stigum frá Jong PSV sem er í 8. og síðasta umspilssæti deildarinnar.