Erlent

Amy Coney Barrett situr fyrir svörum í öldungadeildinni

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Amy Coney Barrett tekur við tilnefningu Trumps forseta á dögunum. Athöfnin var í Rósagarðinum í Hvíta húsinu og hefur verið harðlega gagnrýnd í ljósi þess að svo virðist sem hluti gestanna hafi smitast af kórónuveirunni en litlar sem engar tilraunir voru gerðar til að hafa smitvarnir í lagi á samkomunni. 
Amy Coney Barrett tekur við tilnefningu Trumps forseta á dögunum. Athöfnin var í Rósagarðinum í Hvíta húsinu og hefur verið harðlega gagnrýnd í ljósi þess að svo virðist sem hluti gestanna hafi smitast af kórónuveirunni en litlar sem engar tilraunir voru gerðar til að hafa smitvarnir í lagi á samkomunni.  Jabin Botsford/ Getty Images

Amy Coney Barrett, sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur tilnefnt í Hæstarétt Bandaríkjanna mun síðar í dag mæta fyrir þingnefnd í öldungadeildinni og svara þar spurningum þingmanna sem eiga síðan að ákveð hvort hún sé hæf til starfans. Viðtölin við hana eiga að taka fjóra daga og ef hún telst hæf mun hún taka sætið sem losnaði við andlát Ruth Bader Ginsburg á dögunum.

Deilur hafa staðið um útnefningu Barrett, en demókratar vilja meina að allt of skammur tími sé til kosninga og því ekki við hæfi að Trump forseti tilnefni dómarann. Þessu eru repúblikanar ósammála og þar sem þeir eru með meirihluta í öldungadeildinni eins og stendur eru allar líkur á því að Barrett verði hæstaréttardómari.

Barrett þykir íhaldssöm og verði hún útnefnd verða íhaldsmenn sex í réttinum en frjálslyndari dómarar verða þrír. Barrett, sem er fjörutíu og átta ára gömul er þriðji hæstaréttardómarinn sem Trump útnefnir á þeim fjórum árum sem hann hefur setið í Hvíta húsinu.

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að í ávarpi sem Barrett mun flytja fyrir nefndinni muni hún þakka forsetanum auðsýndan heiður og fara yfir sína sýn á embættið. Hún var aðstoðarkona Antonin Scalia hæstaréttardómara á sínum tíma og búist er við að hún muni gera hans sýn að sinni, en Scalia var frægur fyrir að leggja áherslu á að dómarar skuli einungis dæma eftir bókstafnum, en ekki eftir eigin tilfinningum eða skoðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×