Erlent

Bólu­setningin verður Norð­mönnum að kostnaðar­lausu

Atli Ísleifsson skrifar
Bent Høie er heilbrigðisráðherra Noregs.
Bent Høie er heilbrigðisráðherra Noregs. EPA/Håkon Mosvold Larsen

Bent Høie, heilbrigðisráðherra Noregs, segir að það verði Norðmönnum að kostnaðarlausu að bólusetja sig gegn kórónuveirunni þegar þar að kemur. Reikningurinn falli á norska ríkið, en hann vonast til að hægt verði að hefja bólusetningar snemma á næsta ári.

Høie kynnti fyrir norskum þingheimi í morgun hver staðan væri í landinu á tímum heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Lagði hann áherslu á að ríkisstjórnin óski þess að bóluefnið verði aðgengilegt Norðmönnum um leið og það er tilbúið.

„Við vonumst til að geta hafið bólusetningar þegar snemma 2021, en tímapunkturinn er háður því hvenær lyfjayfirvöld veita samþykki sitt,“ sagði Høie.

Ráðherrann sagði að bólusetningum yrði einstaklingum að kostnaðarlausu, auk þess að norska ríkið myndi leggja út fyrir þeim kostnaði sem myndu leggjast á norsk sveitarfélög og sjúkrahús vegna skipulagningar og framkvæmd bólusetningarinnar.

Áður hefur verið greint frá því að fólk í áhættuhópi og heilbrigðisstarfsmenn verði bólusett fyrst í Noregi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×