Fótbolti

Neymar skoraði þrennu og fór upp fyrir Ronaldo

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Neymar sýnir hversu mörg mörk hann skoraði gegn Perú.
Neymar sýnir hversu mörg mörk hann skoraði gegn Perú. getty/Paolo Aguilar-Pool

Neymar skoraði þrennu þegar Brasilía vann 2-4 sigur á Perú í Suður-Ameríkuriðlinum í undankeppni HM 2022 í nótt.

Með mörkunum þremur komst Neymar upp fyrir Ronaldo á listanum yfir markahæstu leikmenn brasilíska landsliðsins frá upphafi. Neymar er nú með 64 landsliðsmörk og vantar aðeins fjórtán mörk til að slá met Pelé.

Tvö marka Neymars gegn Perú komu úr vítaspyrnum. Samherji Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Everton, Richarlison, var einnig á skotskónum. Brassar hafa unnið báða leiki sína í undankeppninni með markatölunni 9-2.

Úrúgvæ tapaði óvænt fyrir Ekvador, 4-2. Ekvadorar komust í 4-0 en Luis Suárez lagaði stöðuna fyrir Úrúgvæa með tveimur mörkum úr vítum.

Argentína sigraði Bólivíu, 1-2, á útivelli. Lautara Martínez og Joaquín Correa skoruðu mörk Argentínumanna sem eru með fullt hús stiga í undankeppninni.

Falcao tryggði Kólumbíu stig gegn Síle þegar hann jafnaði í 2-2 í uppbótartíma í leik liðanna í Santiago. Arturo Vidal og Alexis Sánchez skoruðu mörk Sílemanna sem komust ekki á síðasta heimsmeistaramót.

Þá vann Paragvæ 0-1 útisigur á Venesúela með marki Gastóns Gimenez.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×