Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, segir skýrslu Ríkisendurskoðunar sýna fram á „gríðarlega vankanta“, bæði hjá Tryggingastofnun ríkisins og félagsmálaráðuneytinu. Hún segir lítinn áhuga á málaflokknum vera til staðar hjá félagsmálaráðherra.
Skýrslan var unnin að beiðni Alþingis og kallaði velferðarnefnd þingsins eftir úttektinni að sögn Halldóru. Hún var kynnt á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fyrr í dag og birt á vef Ríkisendurskoðunar síðdegis.
Mikill meirihluti lífeyrisþega fékk ýmist of- eða vangreiddar greiðslur vegna mismunar á tekjuáætlun og rauntekjum að því er fram kemur í skýrslunni. Einungis 9,4–13% fengu réttar greiðslur.
„Það eru að koma í ljós gríðarlegir vankantar hjá TR og líka hjá ráðuneytinu sem þarf að laga og ráðast í að bæta. Það er alls ekki verið að sinna rannsóknarskyldunni nógu vel, það skortir upplýsingar til viðskiptavina TR um að þeir geti fengið niðurfelldar kröfur eða endurútreikninga,“ sagði Halldóra í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Hún segir ráðuneytið hundsa það að löggjafinn hafi ákveðið að verja tíu milljónum í að setja á laggirnar umboðsmann lífeyrisþega, sem myndi þá sinna upplýsingaskyldu til þeirra sem treysta á kerfið.
„Þessi peningar eru bara nýttir í önnur verkefni og þetta er allt gert með vitund og samþykki ráðuneytisins. Þannig það er ýmislegt sem þarf að laga.“
Að sögn Halldóru er ljóst að áhersla á málaflokkinn sé lítil og ráðherra skorti áhuga.
„Öryrkjar eru búnir að bíða eftir endurskoðun á almannatryggingalögum núna í langan tíma, og það eru tveir starfsmenn í ráðuneytinu sem eru að sinna þessu verkefni meðal annarra verkefna. Það sýnir að þetta er hvergi á forgangslista ráðherra og það bólar ekkert á þessu á þingmálaskrá ráðherra.“
Hér að neðan má sjá viðtal við Halldóru.