Fótbolti

„Neymar er algjör trúður“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Carlos Zambrano brýtur á Neymar í leik Perú og Brasilíu í undankeppni HM 2022 fyrr í vikunni.
Carlos Zambrano brýtur á Neymar í leik Perú og Brasilíu í undankeppni HM 2022 fyrr í vikunni. getty/Paolo Aguilar-Pool

Carlos Zambrano, varnarmaður Perú, fór hörðum orðum um Neymar eftir leik gegn Brasilíu í undankeppni HM 2022 í vikunni og kallaði hann m.a. trúð.

Neymar skoraði þrennu í leiknum sem Brassar unnu, 2-4. Tvö marka hans komu úr vítaspyrnum sem hann fiskaði sjálfur. Zambrano var ekki sáttur með leikræna tilburði Neymars og lét hann heyra það.

„Hann er frábær leikmaður, einn af þeim bestu í heimi, en fyrir mér er hann algjör trúður,“ sagði Zambrano.

„Hann henti sér fjórum til fimm sinnum niður í vítateignum til að sjá hvort dómarinn myndi dæma. Á endanum uppskar hann og fékk tvö víti sem voru ranglega dæmd.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Neymar hefur verið sakaður um að vera valtur á fótunum inn í vítateig andstæðinganna og fyrir að reyna að gabba dómara.

Með mörkunum þremur komst Neymar upp fyrir Ronaldo á listanum yfir markahæstu leikmenn brasilíska landsliðsins frá upphafi. Neymar er nú með 64 landsliðsmörk og vantar aðeins fjórtán mörk til að slá met Pelé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×