Erlent

Fyrr­verandi varnar­mála­ráð­herra Mexíkó hand­tekinn í Banda­ríkjunum

Atli Ísleifsson skrifar
Mexíkóski hershöfðinginn Salvador Cienfuegos gegndi embætti varnarmálaráðherra á árunum 2012 til 2018.
Mexíkóski hershöfðinginn Salvador Cienfuegos gegndi embætti varnarmálaráðherra á árunum 2012 til 2018. gETTY

Mexíkóski hershöfðinginn Salvador Cienfuegos gegndi lykilhlutverki í stríði mexíkóskra yfirvalda gegn eiturlyfjahringjum í tíð sinni sem varnarmálaráðherra landsins á árunum 2012 til 2018. Erlendir fjölmiðlar segja nú að bandaríska fíkniefnalögreglan (DEA) hafi handtekið Cienfuegos á alþjóðaflugvellinum í Los Angeles í gær.

New York Times segir frá því að Cienfuegos sé grunaður um peningaþvætti og að tengjast fíkniefnaviðskiptum.

Blaðið segir að Cienfuegos sé fyrsti háttsetti einstaklingurinn innan mexíkóska hersins sem handtekinn er á bandarískri grundu vegna spillingar sem tengist fíkniefnaviðskiptum.

Haft er eftir Raúl Benítez, sérfræðingi á sviði mexíkóskra hermála, að handtakan muni hafa miklar afleiðingar í för með sér innan mexíkóska hersins.

Cienfuegos var varnarmálaráðherra í forsetatíð Enrique Peña Nieto. Fjöldi fólks sem sat í ríkisstjórn og flokki Nieto sæti nú ásökunum um að tengjast skipulagðri glæpastarfsemi.

Í embættistíð Cienfuegos var mexíkóski herinn sakaður um að hafa drepið fjölda fólks utan réttar, þar á meðal í Tlatlaya árið 2014 þar sem 22, sem grunaðir voru um að tengjast eiturlyfjahring, voru teknir af lífi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×