Innlent

Óskar eftir fundi í allsherjar- og menntamálanefnd um rasisma innan lögreglunnar

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Þórhildur Sunna segir að það sé augljóst að ríkisstjórnin hafi ekki verið tilbúin í þinglok.
Þórhildur Sunna segir að það sé augljóst að ríkisstjórnin hafi ekki verið tilbúin í þinglok.

„Ég mun óska eftir því að allsherjar- og menntamálanefnd taki þetta mál fyrir á fundi og ræði við fulltrúa lögreglunnar um rasisma innan lögreglunnar og aðferðir til þess að sporna við honum,“ sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, á Alþingi í dag.

Í umræðum um störf þingsins ræddi hún um ljósmynd Morgunblaðsins af lögreglukonu sem bar umdeilda fána á búningi sínum.

„Ljósmynd Morgunblaðsins af lögreglukonu sem bar merki hvítra þjóðernissinna og táknmynd teiknimynda-andhetjunnar the Punisher, eða refsarans, við skyldustörf hefur vakið verðskuldaða athygli í dag,“ sagði Þórildur Sunna.

Hún sagði Punisher merkið ekki aðeins sakleysislega tilvísun í teiknimyndapersónu úr Marvel heiminum. „Heldur táknmynd lögreglunnar Vestanhafs sem refsandi afls, þeirra sem taka lögin og refsingar í eigin hendur og sneiða framhjá réttarkerfinu. Skilaboðin eru að lögreglan hafi það hlutverk að refsa borgurunum fyrir ætluð lögbrot þeirra.“

Hún vísaði til yfirlýsingar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um að ítrekað hafi verið við allt starfsfólk að lögreglumenn eigi ekki að bera nein merki sem ekki eru viðurkennd á lögreglubúningi.

„Það eru vissulega jákvæðar fréttir en betur má ef duga skal, sérstaklega í ljósi ummæla lögreglukonunnar sem um ræðir sem sagði í samtali við Vísi að merki sem þessi séu notuð af mörgum lögreglumönnum og að hún teldi ekki að þeir þýddu neitt neikvætt. Hún hafi sjálf borið merkin í áraraðir.“

Þórhildur Sunna sagði ummælin benda til þess að annað hvort skorti mikilvæga fræðslu innan lögreglunnar um rasísk og ofbeldisfull merki, eða að rasismi og ofbeldisfull menning fái að grassera innan lögreglunnar. „Hvoru tveggja er óásættanleg staða.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×