Vestfirðingar flautuðu úr bílum sínum af gleði þegar Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra gaf fyrirmæli um að lyfta skyldi slánni við gangamunna Dýrafjarðarganga. Þegar þeir svo óku í gegn og prófuðu göngin í fyrsta sinn flautuðu þeir ennþá meira. Þetta mátti sjá og heyra á myndbandi Hafþórs Gunnarssonar, fréttaritara Stöðvar 2, frá opnunarathöfninni í dag.
„Stór áfangi er í húsi. Við höfum sigrast á Hrafnseyrarheiði. Það er ekkert minna en það,“ sagði Bergþóra Þorkelsdóttir vegamálastjóri í ávarpi sínu frá Vegagerðinni í Reykjavík. Það væri alltaf hátíðisdagur þegar ný jarðgöng væru opnuð á Íslandi enda væru slík mannvirki með mestu og bestu samgöngubótum sem um getur í vegagerð.

„Tilkoma jarðganga auka lífsgæði og öryggi. En þau gera meira en það því þau búa líka til ný tækifæri, bæði í atvinnulífi og mannlífinu almennt,“ sagði Bergþóra.
„Þetta eru mikil og langþráð tímamót í samgöngum á Vestfjörðum, skipta sköpum fyrir byggðirnar þar,“ sagði Sigurður Ingi í ávarpi sínu.
„Ferðaþjónustan mun styrkjast þegar greið leið liggur allt árið að náttúruperlum Vestfjarða. Ég er þess fullviss að menning og afþreying mun styrkjast með tilkomu heilsártengingar milli Suðurfjarða og norðurum."

„Nú opnast til dæmis möguleikar fyrir börnin, krakkana, á Bíldudal, Patreksfirði og Tálknafirði og víðar, að bregða sér til dæmis til Ísafjarðar á skíði. Og sama verður auðveldara fyrir þá sem koma norðan frá að skreppa til þeirra staða sunnan við. Nú eða fara suður til Reykjavíkur,“ sagði Sigurður Ingi.
Hér má upplifa gleði Vestfirðinga í dag:
Hér má sjá frétt Stöðvar 2 frá opnun jarðganganna: