Maðurinn sem leitað hefur verið að í Stafafellsfjöllum frá því í gærkvöldi er fundinn heill á húfi. Hann er nú á leið til byggða með björgunarsveitarmönnum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu á Suðurlandi.
Lögregla þakkar leitarmönnum og öllum sem aðstoðað hafa við verkefnið kærlega fyrir þeirra framlag.
Á annað hundrað leitarmanna voru við leit að manninum og fleiri voru á leið á vettvang til aðstoðar þegar hann fannst. Þeim hefur nú verið snúið frá og eru væntanlega á heimleið í dag.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var m.a. kölluð út til leitarinnar í gær og hóf aftur leit í birtingu í morgun. Þá voru allar björgunarsveitir í Austur-Skaftafellssýslu og á Austurlandi kallaðar út í gær, auk þess sem notast var við dróna og sporhunda.