Erlent

Vil­hjálmur Breta­prins greindist með kórónu­veiruna í apríl

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fullyrt er í breskum fjölmiðlum að Vilhjálmur hafi greinst með kórónuveiruna í apríl síðastliðnum en leynt því fyrir bresku þjóðinni.
Fullyrt er í breskum fjölmiðlum að Vilhjálmur hafi greinst með kórónuveiruna í apríl síðastliðnum en leynt því fyrir bresku þjóðinni. Getty/Jack Hill - WPA Pool

Vilhjálmur Bretaprins, hertoginn af Cambridge, greindist með kórónuveiruna í apríl á þessu ári. Frá þessu er greint á vef BBC og haft eftir heimildarmönnum innan úr konungsfjölskyldunni.

Talið er að Vilhjálmur hafi greinst á svipuðum tíma og faðir hans, Karl Bretaprins, en hann hafi ákveðið að leyna því fyrir bresku þjóðinni til að valda ekki frekara uppnámi. Greint var frá því í fjölmiðlum í lok mars að Karl hefði smitast af veirunni.

Það var breska slúðurblaðið The Sun sem fyrst sagði frá því að Vilhjálmur hefði smitast af veirunni í vor.

Þar segir að Vilhjálmur hafi ekki viljað segja neinum frá greiningunni því mikilvægir hlutir hefðu verið í gangi og hann vildi ekki valda neinum áhyggjum.

Hann var í einangrun á heimili sínu í Anmer Hall í Norfolk og var sinnt af læknum konungsfjölskyldunnar, að því er fram kom í frétt The Sun.

BBC leitaði eftir viðbrögðum frá Kensington Palace, skrifstofu og heimili Vilhjálms og fjölskyldu hans, en höllin neitaði að tjá sig um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×