Innlent

45 á­bendingar til með­ferðar vegna grímu­lausra vagn­stjóra

Atli Ísleifsson skrifar
Grímuskylda er nú í vögnum Strætó.
Grímuskylda er nú í vögnum Strætó. Vísir/Vilhelm

Alls hafa 45 ábendingar sem borist hafa Strætó um að bílstjórar vagna á höfuðborgarsvæðinu hafi ekki með grímur eða noti þær ekki rétt, verið teknar til meðferðar frá því að grímuskylda var tekin upp í strætisvögnum 5. október síðastliðinn.

Þetta kemur fram í svari frá Guðmundi H. Helgasyni, upplýsingafulltrúa Strætó, við spurningu fréttastofu. Er þar átt við ábendingar sem hafi komið í gegnum þjónustuver, samfélagsmiðla eða eftir öðrum leiðum og verið teknar til formlegrar meðferðar hjá Strætó.

Guðmundur segir að ábendingar hafi reglulega borist frá fólki um þessi mál og að fyrirtækið sé meðvitað um stöðuna. 

„Við erum að skrá þetta niður, hvaða vagnstjórar eigi í hlut – hvar, hvenær, á hvaða leið – og komum ábendingum áleiðis á yfirmenn viðkomandi. Við reynum að tækla hvert mál eins og við getum.“

Reglurnar og tilmælin mjög skýr

Guðmundur segir reglurnar vera mjög skýrar og tilmælin frá Strætó vera sömuleiðis mjög skýr. „Það er grímuskylda, bæði fyrir starfsfólk og farþega. Þetta er smá glíma sem við þurfum að taka. Við vitum alveg að þessar grímur geta verið óþægilegar og það getur verið freistandi að taka hana niður í smá stund. En við þurfum bara að vera sterk og halda þessu áfram í nokkrar vikur.“

Guðmundur segir ennfremur að nokkur fjöldi ábendinga hafi sömuleiðis borist um að grímulausu fólki hafi verið hleypt um borð í vagnana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×