Fótbolti

Nær allir liðsfélagar Arons með veiruna

Sindri Sverrisson skrifar
Aron Bjarnason var frábær í liði Vals í sumar sem lánsmaður frá Újpest.
Aron Bjarnason var frábær í liði Vals í sumar sem lánsmaður frá Újpest. vísir/hag

Á meðan að Aron Bjarnson nýtur þess að vera orðinn Íslandsmeistari í fyrsta sinn eru liðsfélagar hans í ungverska liðinu Újpest nánast allir komnir með kórónuveiruna.

Aron kom að láni til Vals frá Újpest í vor og átti ríkan þátt í því að liðið skyldi krýnt Íslandsmeistari, þegar Pepsi Max deildin var flautuð af síðasta föstudag.

Samningur Arons við Újpest er til sumarsins 2022 og hann snýr að óbreyttu aftur til félagsins í vetur. Þá ættu flestir liðsfélaga hans hjá ungverska liðinu að hafa myndað mótefni gegn kórónuveirunni, því 23 af 25 leikmönnum liðsins hafa nú greinst með veiruna.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Újpest þar sem jafnframt segir að nokkrir leikmanna U19-liðs félagsins hafi einnig greinst með jákvætt sýni. Því sjái félagið sér ekki fært að mæta Diósgyör á föstudaginn. Újpest bað mótherja sína um að samþykkja að fresta leiknum en þeirri beiðni var hafnað, og útlit fyrir að Újpest verði úrskurðað 3-0 tap í leiknum. Það er þó í höndum ungverska knattspyrnusambandsins að ákveða það endanlega.

Újpest var aðeins með sjö leikmenn úr aðalliði sínu þegar liðið mætti MTK á sunnudaginn, og tapaði 4-0, þar sem veiran hafði breiðst út í hópnum. Nú er staðan enn verri og því varð liðið að hætta við að spila á föstudag.

Þess má geta að íslenska karlalandsliðið heldur til Ungverjalands í næstu viku og mætir þar heimamönnum í úrslitaleik um sæti á EM. Leikurinn er í Búdapest fimmtudaginn 12. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×