Fótbolti

Lék í treyju númer 007 til heiðurs Connery

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sean Connery, í hlutverki James Bond, í frægu atriði í kvikmyndinni Goldfinger.
Sean Connery, í hlutverki James Bond, í frægu atriði í kvikmyndinni Goldfinger. getty/United Artists

Brasilíski landsliðsmaðurinn Éverton Ribeiro minntist Seans Connery á skemmtilegan hátt í leik Flamengo og Sao Paolo í brasilísku deildinni á dögunum. Connery lést á laugardaginn, níræður að aldri.

Éverton lék í treyju númer 007 með vísun í James Bond, njósnara hennar hátignar, sem Connery túlkaði fyrstur manna á hvíta tjaldinu. Éverton leikur venjulega í treyju númer sjö en bætti tveimur núllum fyrir framan til heiðurs Connery.

Nýja númerið hjálpaði Éverton og Flamengo þó lítið því liðið tapaði fyrir Sao Paolo með fjórum mörkum gegn einu.

Éverton hefur leikið átta landsleiki fyrir Brasilíu. Hann hefur lengst af leikið í heimalandinu ef frá eru talin þrjú ár þar sem hann var í herbúðum Al-Ahli í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Connery heitinn var mikill fótboltaáhugamaður og studdi Rangers með ráðum og dáð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×