Fótbolti

Arnór til móts við landsliðið í dag þrátt fyrir smit liðsfélaga

Sindri Sverrisson skrifar
Arnór Ingvi Traustason var í byrjunarliði Íslands í 2-1 sigrinum gegn Rúmeníu í undanúrslitum EM-umspilsins.
Arnór Ingvi Traustason var í byrjunarliði Íslands í 2-1 sigrinum gegn Rúmeníu í undanúrslitum EM-umspilsins. vísir/hulda margrét

Þrátt fyrir að hafa spilað leik í gær með Anders Christiansen, sem svo reyndist smitaður af kórónuveirunni, ferðast Arnór Ingvi Traustason til Þýskalands í dag til móts við íslenska landsliðið.

Þetta staðfestir Ómar Smárason, deildarstjóri samskiptadeildar KSÍ, við RÚV í dag. Því er von til þess að Arnór Ingvi geti spilað með Íslandi í úrslitaleiknum við Ungverjaland á fimmtudagskvöld um sæti á Evrópumótinu í fótbolta.

Arnór kom inn á sem varamaður og lék 20 mínútur með Malmö í gær þegar liðið vann Sirius 4-0. Christiansen og Arnór voru því báðir inni á vellinum í tíu mínútur áður en Dananum var skipt af velli. Eftir leik fögnuðu leikmenn Malmö svo sænska meistaratitlinum, sem liðið tryggði sér þrátt fyrir að enn séu þrjár umferðir eftir af leiktíðinni.

Íslenska landsliðið kemur saman í Augsburg í dag og verður þar við æfingar fram á miðvikudag þegar hópurinn fer yfir til Ungverjalands.

Ómar segir að allir í íslenska hópnum muni hafa farið í skimun fyrir komuna til Þýskalands og að allir fari í skimun á morgun sömuleiðis. Arnór hafi þegar farið í tvö próf sem hafi reynst neikvæð og komi því til Augsburg í dag, en að „farið verði sérstaklega varlega með hann um sinn“, eins og það er orðað í frétt RÚV.

Leikur Ungverjalands og Íslands verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 fimmtudaginn 12. nóvember klukkan 19.45 en upphitun hefst klukkan 18.45. Áskrift er hægt að kaupa hér en einnig verður í boði að kaupa stakan viðburð á myndlyklum Vodafone og Símans á kr. 990, sem og í vefsjónvarpi Stöðvar 2.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×