Íslenska karlalandsliðið skipað leikmönnum 21 árs og yngri tapaði naumlega fyrir Ítalíu, 1-2, á Víkingsvelli í síðasta heimaleik sínum í riðli 1 í undankeppni EM í dag.
Tommaso Pobega skoraði bæði mörk Ítala, það fyrra á 35. mínútu og svo sigurmarkið tveimur mínútum fyrir leikslok. Willum Þór Willumsson jafnaði fyrir Ísland á 62. mínútu.
Ísland er áfram í 4. sæti riðils 1 í undankeppninni með fimmtán stig og verður að vinna Írland á sunnudaginn til að eiga möguleika á að komast á EM. Ísland átti að mæta Armeníu á miðvikudaginn í næstu viku en þeim leik var frestað og líklega fer hann ekki fram.
Sigurvegarar riðlanna níu í undankeppninni fara beint á EM sem og liðin fimm sem eru með bestan árangur í 2. sæti riðlanna. Í þeim riðlum sem innihalda sex lið þurrkast árangurinn gegn botnliðinu út.
Leikurinn var frekar bragðdaufur og fyrir utan mörkin þrjú gerðist lítið og þau komu eiginlega öll upp úr engu. Ítalía var mun meira með boltann í leiknum en ógnaði íslenska markinu lítið lengst af.
Ítalir náðu forystunni á 35. mínútu þegar Pobega skoraði með góðu vinstri fótar skoti. Riccardo Sottil á átti þá sendingu inn á vítateig Íslands, Róbert Orri Þorkelsson reyndi að hreinsa en boltinn fór beint fyrir fætur Pobega sem þakkaði pent fyrir sig og skoraði.
Gestirnir fengu tvö ágætis færi á næstu mínútum. Marco Sala átti skot beint á Patrik Sigurð Gunnarsson og Sottil átti svo hættulega fyrirgjöf sem Gianluca Scamacca missti naumlega af. Öll færi ítalska liðsins undir lok fyrri hálfleiks komu eftir sóknir upp vinstri kant þeirra.
Íslenska liðið skrúfaði fyrir lekann í hálfleik og fyrir utan þennan kafla undir lok fyrri hálfleik varðist íslenska liðið mjög vel í leiknum.
Íslenska sóknin var aftur á móti frekar bitlaus, nánast allan leikinn. Bestu menn Íslands komust lítið í takt við leikinn og íslenska liðinu gekk á köflum erfiðlega að halda boltanum.
Á 62. mínútu jafnaði Ísland. Hörður Ingi Gunnarsson tók langt innkast, Marco Carnesecchi fór í skógarferð, boltinn datt fyrir Jón Dag Þorsteinsson sem sendi á Andra Fannar Baldursson. Hann átti skot fyrir utan vítateig sem Willum stýrði í netið.
Fátt markvert gerðist næstu 25 mínúturnar. Ítalir voru áfram meira með boltann en komust lítt áleiðis gegn sterkri íslenskri vörn.
Þegar tvær mínútur voru til leiksloka skoraði Pobega sigurmark Ítala og kom þeim í afar góða stöðu í riðlinum. Hann fékk þá boltann frá Sottil og átti skot sem fór af Alex Þór Haukssyni og í fjærhornið, óverjandi fyrir Patrik. Ótrúlega svekkjandi mark að fá á sig og ótrúlega svekkjandi úrslit.