Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hitaði upp fyrir umspilsleik Íslands og Ungverjalands í kvöld með skemmtilegu innslagi um fótboltafeðgana Guðmundur Benediktsson og Albert GUðmundsson.
Guðmundur og Albert munu báðir koma að leiknum mikilvæga á móti Ungverjum í kvöld þar sem íslenska landsliðið getur tryggt sig inn á Evrópumótið næsta sumar. Albert verður væntanlega á varamannabekknum tilbúinn að koma inn á völlinn en Gummi Ben mun lýsa leiknum fyrir Íslendinga á Stöð 2 Sport.
„Ég ætlaði að verða heimsfrægur knattspyrnumaður en í staðinn varð ég heimsfrægur fyrir að vera klikkaði lýsandinn,“ sagði Guðmundur Benediktsson í viðtalinu. Gummi Ben sló náttúrulega í gegn þegar hann missti sig við að lýsa sigurleikjum á móti Austurríki og Englandi á Evrópumótinu sumarið 2016.
Í myndbandinu er rifjuð upp saga þessara miklu knattspyrnufjölskyldu en langafi Alberts Guðmundssonar og nafni var fyrsti íslenski atvinnumaðurinn í einni af stóru deildunum í Evrópu. Albert var líka sá fyrsti sem skoraði fyrir íslenska landsliðið.
Guðmundur Benediktsson skoraði sjálfur í fyrsta landsleik sínum aðeins nítján ára gamall en var eins óheppinn með meiðsli og menn geta orðið.
Þetta fyrsta mark hans á móti Sameinuðu arabísku furstadæmunum er sýnt í myndbandinu en að skoraði hann á Laugardalsvellinum 30. ágúst 1994 og tryggði Íslandi þá 1-0 sigur. Hitt landsliðsmark Guðmundar á móit Kýpyr árið 1996 er einnig sýnt.
Það er viðtal við bæði Guðmund og Albert en það er líka sýndar myndir af Alberti þegar hann var mjög ungur.
Hér fyrir neðan má sjá þetta skemmtilega innslag með fótboltafeðgunum.