Ensku götublöðin eru farin að geta sér til um það hvaða stórlið muni hreppa hinn 17 ára gamla Ísak Bergmann Jóhannesson sem á dögunum lék sinn fyrsta A-landsleik í fótbolta.
Í grein Mirror um helgina segir að Juventus hafi nú tekið forystuna í kapphlaupinu um Ísak, sem er Skagamaður en hefur verið leikmaður Norrköping í Svíþjóð í tæp tvö ár.
Enska blaðið segir, og Daily Mail tekur undir það, að Norrköping vilji í heildina fá yfir 10 milljónir punda fyrir Ísak, jafnvirði 1,8 milljarða króna. Helmingur upphæðarinnar sé þó háður því að ákveðin skilyrði verði uppfyllt.

Liverpool, Manchester United og Real Madrid hafa öll verið sögð fylgjast með Ísaki. Í frétt Mirror er sjónum beint að Manchester United og sagt að félagið eigi á hættu að missa af íslenska táningnum vegna aukins áhuga Juventus. United hafi þó fylgst með Ísak undanfarið ár og Ole Gunnar Solskjær sé hrifinn af leikmanninum, sem þótt hefur standa sig afar vel í sænsku úrvalsdeildinni.
Ísak hefur svo sjálfur sagt að Manchester United hafi alltaf verið í uppáhaldi hjá sér en hann bjó í Manchester þegar pabbi hans, Jóhannes Karl Guðjónsson, spilaði á Englandi. Hann vilji þó einbeita sér að því að spila vel fyrir Norrköping að svo stödd.