Thomas Moyer, alþjóðaöryggisstjóri hjá tæknifyrirtækinu Apple, hefur verið ákærður fyrir að hafa reynt að múta lögreglumönnum. Hann er sagður hafa boðið þeim hundruð iPad-spjaldtölva, með það að markmiði að fá leyfi fyrir fjóra starfsmenn Apple til að bera byssur innan klæða. Guardian-fjallar um málið.
Saksóknarar í Kaliforníu segja tvo lögreglumenn hafa tekið þátt í ráðabrugginu. Þeir hafi hafnað umsókn um leyfi starfsmanna til vopnaburðar nema þeir fengju eitthvað í staðinn.
Moyer er þá sagður hafa reynt að fá umsóknirnar samþykktar með því að bjóða lögregluumdæminu 200 iPad-spjaldtölvur, endurgjaldslaust. Virði spjaldtölvanna er um 70.000 dollarar, eða rúmlega níu og hálf milljón króna.
Afhending spjaldtölvanna fór aldrei fram, en saksóknarar segja að hætt hafi verið við hana á síðustu stundu eftir að Moyer og annar lögreglumannana komist að því að verið væri að rannsaka málið og húsleit hefði farið fram í húsakynnum lögreglu vegna þess.
Lögreglumennirnir tveir, Rick Sung og James Jensen, hafa einnig verið ákærðir. Sung fyrir að falast eftir mútum og Jensen fyrir að hjálpa honum við það.