Real Madrid er komið í 2. sæti B-riðils Meistaradeildar Evrópu eftir 2-0 sigur á Inter Milan á útivelli í kvöld. Arturo Vidal, miðjumaður Inter, fékk tvö gul með sjö sekúndna millibili og þar með rautt í fyrri hálfleik.
Leikurinn byrjaði vægast sagt illa fyrir heimamenn en gestirnir frá Spáni fengu vítaspyrnu á 7. mínútu leiksins. Belginn Eden Hazard fór á vítapunktinn og skoraði af öryggi fram hjá Samir Handanović í marki Inter.
Var það eina mark fyrri hálfleiks en þegar rúmur hálftími var liðinn af leiknum gerðist athyglisvert atvik sem átti eftir að draga dilk á eftir sér. Hinn blóðheiti Vidal vildi þá fá dæmda vítaspyrnu á leikmann Real er honum fannst brotið á sér innan vítateigs gestanna.
Anthony Taylor, dómari, dæmdi ekki og Vidal gjörsamlega trylltist. Taylor gaf honum í kjölfarið gult spjald fyrir kjaftbrúk en Vidal lét ekki segjast. Hélt hann áfram að urða yfir Taylor og fékk í kjölfarið annað gult spjald. Aðeins voru sjö sekúndur á milli spjaldanna tveggja.
32:18: Yellow card for dissent
— Football Tweet (@Football__Tweet) November 25, 2020
32:25: Another yellow card for dissenting the dissent
Arturo Vidal has lost his head. pic.twitter.com/1hWkQHaGYi
Þegar tæpur klukkutími var svo liðinn af leiknum skoraði Rodrygo annað mark gestanna með góðu skoti eftir sendingu Lucas Vázquez frá hægri inn á teig. Rodrygo kláraði færið af stakri snilld en hann klippti boltann á lofti úr þröngu færi. Staðan orðin 2-0 og reyndust það lokatölur leiksins.
Real fer þar með upp í 2. sæti riðilsins með fimm stig á meðan Shakhtar er með fjögur stig í 3. sæti og Inter tvö stig á botni riðilsins. Gladbach trónir hins vegar á toppnum með átta stig.