Enski boltinn

Jökull og félagar verða í pottinum með öllum stóru liðunum

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Jökull í leik með Exeter
Jökull í leik með Exeter vísir/Getty

Jökull Andrésson stóð í marki Exeter City sem vann frækinn sigur í enska bikarnum í fótbolta í dag.

Exeter, sem leikur í ensku D-deildinni, mætti Gillingham sem er um miðja C-deildina á útivelli og var því Gillingham sigurstranglegri aðilinn þegar kom að leiknum í dag.

Gillingham komst yfir á 20.mínútu en Exeter skoraði þrjú mörk á tíu mínútna kafla um miðbik fyrri hálfleiks og fóru því með tveggja marka forystu í leikhléið.

Gillingham minnkaði muninn í 2-3 á 80.mínútu en þeim tókst ekki að jafna metin. Lokatölur 2-3 fyrir Exeter.

Sigurinn veitir Exeter keppnisrétt í 3.umferð enska bikarsins en á því stigi keppninnar koma öll liðin úr ensku úrvalsdeildinni til leiks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×