Arion banki hefur ákveðið að fækka tímabundið opnum útibúum sínum á höfuðborgarsvæðinu sem varúðarráðstöfun vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.
Í tilkynningu á vef bankans segir að þrjú af fimm útibúum bankans á höfuðborgarsvæðinu verði opin hverju sinni.
„Viðskiptavinum á höfuðborgarsvæðinu sem þurfa að sækja þjónustu í útibúi er því bent á útibú Arion banka á Bíldshöfða í Reykjavík, í Smáranum í Kópavogi og stafrænt útibú við Hagatorg.
Útibú Arion banka í Borgartúni 18 og í Kringlunni verða lokuð tímabundið en sjálfsafgreiðsluvélar útibúanna verða áfram opnar og bjóða bæði upp á úttektir og innlagnir auk fjölda annarra aðgerða,“ segir í tilkynningunni.
Arion banki, Landsbankinn og Íslandsbankinn greindu í gær frá því að viðskiptavinum sem sjá fram á erfiðleika við að standa skil á afborgunum íbúðarlána vegna faraldursins geti sótt um greiðsluhlé á afborgunum.