Tvö þúsund áhorfendur voru mættir á Anfield í dag í fyrsta skipti síðan að Liverpool mætti Atletico Madrid í Meistaradeildinni í marsmánuði. Liverpool tók á móti áhorfendunum með 4-0 sigri á Úlfunum.
Það voru liðnar 24 mínútur er Mohamed Salah skoraði fyrsta mark leiksins. Conor Coady gerði sig seka um skelfileg mistök og Egyptinn var ekki lengi að hirða af honum boltann og koma boltanum í netið.
Skömmu síðar dæmdi Craig Pawson, dómari leiksins, vítaspyrnu. Hann taldi að Sadio Mane hafði brotið á áður nefndum Coady en eftir skoðun í VARsjánni var vítaspyrnan dregin til baka.
Staða var 1-0 í hálfleik en á 59. mínútu tvöfaldaði Georginio Wijnaldum forystuna með þrumufleyg. Átta mínútum síðar varð staðan 3-0 er Joel Matip skoraði þriðja markið og Nelson Semedo gerði sjálfsmark á 78. mínútu. Lokatölur 4-0.
Liverpool er því komið upp í annað sætið, með jafn mörg stig og topplið Tottenham, en lakari markahlutfall. Wolves er í tíunda sæti deildarinnar með sautján stig.