Tegnell var gestur umræðuþáttarins Aktuellt á SVT í gær og ræddi þar háa dánartíðni af völdum veirunnar í Svíþjóð miðað við hin Norðurlöndin. Þar sagði hann að Noregur og Finnland væru óvenjuleg á evrópskan mælikvarða í þessu samhengi. Ríkin séu tiltölulega fámenn og þar sé nokkuð dreifbýlt.
Þá sagði Tegnell að í Noregi og Finnlandi væru „litlir hópar innflytjenda“ en innflytjendur hefðu verið „mjög virkir“ í mörgum löndum.
Margir hafa skilið þessi ummæli á þann veg að Tegnell hefði ýjað að því að innflytjendur bæru mikla ábyrgð á dreifingu veirunnar í Svíþjóð og öðrum Evrópulöndum, hvar slíkir samfélagshópar eru fjölmennari en í Finnlandi og Noregi.
Att personer med utländsk bakgrund i vårt samhälle drabbats hårdare av covid-19 bör inte tolkas som att vi hade haft väsentligt lägre smitta utan dessa personer, som t.ex ofta har yrken där distansarbete är svårt. Anpassade insatser i de områden/yrken som drabbas värst behövs.
— Tove Fall (@FallTove) December 4, 2020
Tegnell segir í samtali við Aftonbladet í dag að orðalagið hafi verið „óheppilegt“. Það hefði ekki verið ætlunin að halda því fram að innflytjendur beri uppi dreifingu veirunnar.
„Ég hef ætíð haldið því skýrt fram að sú sé ekki raunin. Þvert á móti er þetta hópur sem hefur átt undir högg að sækja af völdum sýkingarinnar,“ segir Tegnell. Í því samhengi nefnir hann að í Svíþjóð búi fleiri af erlendum uppruna en í nágrannalöndunum. Því miður sé það svo að veiran hafi komið verr niður á þessum hópi en Svíum sem ekki eiga rætur að rekja til útlanda.
Sænsk yfirvöld hafa legið undir gagnrýni fyrir viðbrögð sín við faraldrinum. Þau gripu til vægari sóttvarnaaðgerða en flest önnur Evrópuríki. Tala látinna í Svíþjóð er nú rúmlega sjö þúsund manns, mun hærri miðað við höfðatölu en í nágrannalöndunum Noregi, Danmörku og Finnlandi. Það er þó nokkru lægra hlutfall en í stóru Evrópulöndunum þar sem ástandið hefur verið verst.