Árið 2011 fékk einstaklingur þá Finn Arnar og Þórarinn Blöndal myndlistarmenn til að endurgera Aðalstræti eins og það leit út árið 1906.
Reykjavíkurborg keyptir svo módelið af honum á þessu ári og þeir hafa síðustu mánuði unnið við það og bætt tíu húsum í götumyndina. En við módelsmíðina hafa þeir aðallega stuðst við myndir af Aðalstræti á þessum tíma.
„Það er balsamviður í mikið af húsakostinum í módelinu, plastefni, sandur, möl og fundið og stolið efni, en við höfum stolið ýmsu í þetta, ef við teljum að það henti þá er því stungið í vasann, segir Finnur Arnar og brosir.
Myndlistarmennirnir segjast hafa lært mikið um Reykjavík fyrri tíma við módelsmíðina, til að mynda hvernig lífið gekk fyrir sig.
„Hljóðheimurinn á þessum tíma var allur annar en nú. Þarna eru bara dýr, fuglar, menn og sjávarhljóð sem búa til hljóðin, engar vélar. Svo er það lyktin, því allt klóak var ofanjarðar þannig að þú getur ímyndað þér hvernig lyktin var á sólríkum degi,“ segir Þórarinn Blöndal.

Götumyndin ásamt sýndarveruleika verður sett upp í Aðalstræti 10 og verður þá hluti af Landnámssýningunni en göng verða á milli Aðalstrætis 16 þar sem sýningin er nú til húsa og Aðalstrætis 10. Hljóðmynd hefur þegar verið gerð frá hverju og einu húsi í módelinu til að mynda er hægt að heyra félaga í Hjálpræðishernum syngja.
Helga Maureen Gylfadóttir verkefnastjóri hjá Borgarsögusafninu segir enn fremur að hægt verði að fylgjast með mannlífinu í Aðalstræti á þessum tíma.
„Einhverjir eru að fara á ball á Hótel Íslandi, svo eru þeir sem skreppa í bíó í Fjalakettinum, einhverir eru að rífast yfir launum og einn að biðja stúlku þannig að það er ýmislegt í gangi árið 1906“ segir Helga.
Módelið var flutt frá Eyjaslóð 9 þar sem myndlistarmennirnir hafa unnið við það og í Aðalstræti 10 í dag. Þeir Finnur Arnar og Þórarinn segja þó að verkið sé ekki alveg búið, þeir muni áfram vinna að módelinu, jafnvel eftir að sýningin opnar.
Búist við að sýningin verði opnuð í Aðalstræti þegar aðstæður leyfa.
