Fótbolti

Segir að KSÍ vilji fá Lars aftur en Eið Smára og Arnar Þór til að taka við landsliðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen hefur verið aðstoðarmaður Arnars Þórs Viðarssonar með íslenska U-21 árs landsliðið undanfarin tvö ár.
Eiður Smári Guðjohnsen hefur verið aðstoðarmaður Arnars Þórs Viðarssonar með íslenska U-21 árs landsliðið undanfarin tvö ár. vísir/vilhelm

Í Sportinu í dag sagðist Ríkharð Óskar Guðnason hafa heimildir fyrir að KSÍ vilji fá Lars Lagerbäck aftur til starfa, þótt hann verði ekki þjálfari karlalandsliðsins. Þá sagðist Rikki hafa heyrt að Eiður Smári Guðjohnsen og Arnar Þór Viðarsson séu efstir á óskalistanum yfir næstu landsliðsþjálfara.

Lars er án starfs eftir að honum var sagt upp sem þjálfara norska karlalandsliðsins. Lars var þjálfari íslenska karlalandsliðsins á árunum 2012-16 og hefur verið orðaður við endurkomu í gamla starfið sitt. Rikki segir að Lars gæti snúið aftur til Íslands en hann verði ekki landsliðsþjálfari.

„Ég er búinn að heyra, og ég vil meina að þetta sé fínasti heimildamaður sem gaukaði þessu að mér og er tengdur fótboltaheiminum, að Lars verði ekki landsliðsþjálfari. Það er verið að reyna að semja við Lars um að verða einhvers konar ráðgjafi, tæknilegur stjórnandi yfir báðum landsliðunum,“ sagði Rikki.

Hann sagði jafnframt að vilji sé fyrir því að fá Eið Smára og Arnar Þór til að stýra karlalandsliðinu í sameiningu. Þeir hafa unnið saman með U-21 árs landslið karla og Arnar er yfirmaður knattspyrnusviðs hjá KSÍ. Eiður tók við FH um mitt síðasta sumar og skrifaði svo undir nýjan tveggja ára samning við félagið í haust.

„Mennirnir sem eru sagðir á óskalista KSÍ eru Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen saman. Ég heyrði það að það væri einhvers konar klásúla í samningnum hjá Eiði við FH að hann geti hoppað í þetta verkefni ef það kemur upp,“ sagði Rikki.

Hlusta má á Sportið í dag hér fyrir neðan. Umræðan um landsliðsþjálfara Íslands hefst á 24:50.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×