Fótbolti

Meiðsli Neymar ekki jafn al­var­leg og fyrst var talið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Neymar í leiknum í gær.
Neymar í leiknum í gær. Xavier Laine/Getty Images

Brasilíumaðurinn Neymar meiddist í leik með Paris Saint-Germain um helgina og var óttast að hann yrði lengi frá. Eftir frekari rannsóknir er talið að hann muni snúa aftur í næsta mánuði.

Neymar meiddist á ökkla í 1-0 tapi PSG gegn Lyon í gær, sunnudag. Thiago Mendes fékk rautt spjald fyrir tæklinguna á Neymar í leiknum.

Eftir að hafa farið í nánari skoðun í dag kom í ljós að ökkli Neymar var ekki jafn illa farinn og fyrst var óttast. Virðist sem Brassinn knái hafi aðeins snúið illa upp á ökklann en óttast var að hann hefði mögulega brotnað eftir tæklinguna.

Neymar mun fara í nánari skoðanir á næstu tveimur dögum og þá ætti endalega að liggja fyrir hversu lengi hann verður frá.

Ef allt fer að óskum verður Neymar orðinn fullfrískur þegar PSG mætir hans fyrrum liði Barcelona í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í febrúar.

PSG er sem stendur í 3. sæti frönsku deildarinnar með 28 stig, einu stigi á eftir Lille og Lyon. Marseille er í 4. sætinu með 27 stig en á tvo leiki til góða á efstu þrjú liðin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×