Biden fékk á endanum 306 atkvæði eins og búist hafði verið við og fráfarandi forseti Donald Trump hlaut 232 atkvæði.
Atkvæðagreiðsla kjörmannanna er að mestu formsatriði en í Bandaríkjunum greiða kjósendur í forsetakosningunum í raun sérstökum kjörmönnum sitt atkvæði en þeir eru mismargir eftir hvaða ríki er um að ræða. 270 atkvæði þarf til að fara með sigur af hólmi þannig að sigur Bidens er nokkuð sannfærandi, þrátt fyrir að Trump hafi gert allt sem í hans valdi hefur staðið til að varpa skugga á kosningarnar og hefur margsinnis talað um svindl í því samhengi. Biden hélt ræðu í gærkvöldi þar sem hann gagnrýndi framgöngu Trumps harðlega og sagði að lýðræðið í Bandaríkjunum hefði staðið af sér þá árás og að vonandi komi aldrei aftur slíkir tímar þegar sótt sé að lýðræðinu með hótunum og ógnandi tilburðum.
„Í Bandaríkjunum er það ekki svo að stjórnmálamenn geti tekið sér völd, heldur er það fólkið í landinu sem færir þeim völdin. Lýðræðiseldurinn var kveiktur hjá þessari þjóð fyrir langa löngu og nú vitum við að ekkert, ekki einu sinni faraldur eða misnotkun valdsins, getur slökkt þann eld,“ sagði Joe Biden verðandi forseti Bandaríkjanna.
Trump sjálfur hefur ekkert tjáð sig um niðurstöður kjörsins enn sem komið er en á sama tíma og Biden var tryggður sigurinn með atkvæðum kjörmanna í Kalíforníu, tilkynnti hann á Twitter að dómsmálaráðherrann, William Barr, væri á förum fyrir jól. Barr vakti reiði Trumps á dögunum þegar hann sagði engar vísbendingar umn að brögð hafi verið í tafli í kosningunum.