Í yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans í morgun segir að taumhald peningastefnunnar hafi stutt við eignamarkaði og auðveldað heimilum og fyrirtækjum að takast á við afleiðingar farsóttarinnar og viðhaldið fjármálastöðugleika. Lækkun Seðlabankans á kröfu á framlagi viðskiptabankanna upp á 60 milljarða í sveiflujöfnunarauka og aðgerðir til að auka laust fé í umferð hafi auðveldað fjármálafyrirtækjum að vinna með lántakendum í greiðsluerfiðleikum og samtímis viðhaldið útlánagetu.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir markmið aðgerða Seðlabankans hafa verið að örva hagkerfið með athygli á heimilin til að byrja með.

„Reyna að tryggja lægri vexti til heimilanna, að einhverju leyti reyna að stabilisera gengi krónunnar og þá kaupmátt í kerfinu, tryggja stöðugleika og reyna að örva einkaneyslu. Til að skapa ákveðið viðnám fyrir kerfið," sagði Ásgeir á kynningarfundi fjármálastöðugleikanefndar í morgun. Þessi markmið hafi heppnast.
Lágvaxtaumhverfi skapaði hins vegar nýjar áskoranir á fjármálamarkaði að mati fjármálastöðugleikanefndar, sérstaklega fyrir lífeyrissjóðina sem væru ráðandi þátttakendur á innlendum fjármálamarkaði og kerfislega mikilvægir. Ávöxtunarkrafa þeirra upp á 3,5 prósent hafi verið sett í allt öðru vaxtaumhverfi en nú ríki. Bankarnir hafi þurft að fylgja kerfislegum viðmiðum í starfsemi sinni og það ætti einnig að gilda um lífeyrissjóðina.
„Þannig að við náum að tryggja stöðugleika í kerfinu að einhverju leyti. Við séum þá ekki með stóra aðila sem eru að taka ákvarðanir sem eru kannski á skjön við almennan stöðugleika. Með þessu er ég ekki að segja að lífeyrissjóðirnir séu endilega að því. Það er bara mjög mikilvægt að lífeyrissjóðirnir, sérstaklega þeir sem eru með hundruði milljarða eignasafn og skylduáskrift frá landsmönnum, (taki tillit til) að þeir eru ekki eins og venjulegir fjárfestar," sagði Ásgeir Jónsson.
Mikilvægt væri að við stefnumótun lífeyrissjóðakerfisins sem nú standi fyrir dyrum verði tekið mið af áhrifum þeirra á fjármálastöðugleika.