Enski boltinn

Leno gagnrýndi við­horf Arsenal og segir að ekki sé hægt að kenna Arteta um

Anton Ingi Leifsson skrifar
Luis, Holding og Bernd Leno bregðast illa við í gær.
Luis, Holding og Bernd Leno bregðast illa við í gær. David Price/Getty

Það gengur ekki né rekur hjá Arsenal þessa daganna en liðið gerði 1-1 jafntefli við Southampton í fyrrakvöld. Bernd Leno, markvörður liðsins, segir að það sé ekki hægt að kenna stjóranum, Mikel Arteta, um stöðu liðsins.

Pressan á Arteta hefur verið að aukast síðustu vikur en Arsenal hefur ekki unnið í síðustu sex leikjum sínum í deildinni og er liðið í 15. sæti ensku deildarinnar. Leno segir að leikmennirnir þurfi að taka ábyrgð.

„Stjórinn er síðasti maðurinn sem við eigum að kenna um fyrir að vera í þessari stöðu. Ef þú horfir á það hvernig við erum að hlaupa um völlinn stundum, þá er bara hægt að kenna leikmönnunum um,“ sagði Arteta.

„Viðhorfið er lélegt og okkur vantar aga. Við höfum ekkert sjálfstraust. Það eru margir hlutir sem spila inn í. Við höfum talað um þetta í leikmannahópnum og allir eru sammála því um að breyta þessu eins fljótt og auðið er.“

„Við erum að fá rauð spjöld, gera mistök og standa vitlaust í okkar stöðum. Við höfum talað um þetta þúsund sinum. Að endingu er þetta einbeiting sem okkur vantar. Stjórinn er ekki vandamálið. Við gagnrýnum okkur sjálfa og vitum að við eigum að taka ábyrgðina.“

Arsenal mætir Everton um helgina sem hefur unnið tvo síðustu leiki og er komið upp í fimmta sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×