Talsmaður ríkisstjórnar Katsina greindi frá því í dag að 344 drengir hafi snúið aftur til síns heima og eru þeir allir hraustir. Ekki er vitað hvernig drengirnir sluppu.
Yfirvöld segja að öllum drengjunum, sem voru teknir, hafi verið sleppt en aðrar frásagnir benda til þess að einhverjir séu enn í haldi ræningja sinna.
Hópur árásarmanna, sem vopnaðir voru AK-47 hríðskotarifflum, réðst á heimavistarskólann á föstudaginn í síðustu viku og numu þeir meira en þrjú hundruð drengi á brott. Hryðjuverkahópurinn Boko Haram tók í vikunni ábyrgð á árásinni og birtu samtökin myndband sem sýndi einhverja drengina.
Yfirvöld sögðu í vikunni að 320 drengja væri saknað en heimamenn og foreldrar drengjanna sögðu að þeir væru töluvert fleiri. Því er ekki víst hvort einhverjir séu enn í haldi eða hvort þeir hafi allir verið frelsaðir.
Fréttastofa Reuters hafði eftir Aminu Bello Masari, ríkisstjóra Katsina, að flestir drengjanna væru komnir í öruggt skjól en enn væru einhverjir enn í haldi árásarmannanna. Þá hafði fréttastofa AFP einnig eftir heimildarmanni að einhverjir drengjanna væru enn í haldi.
Abdul Labaran, talsmaður yfirvalda í Katsina, sagði í yfirlýsingu í dag að enginn drengjanna hafi dáið í haldi árásarmannanna. Það fer þvert gegn því sem kom fram í myndbandinu sem Boko Haram sendi frá sér, þar sem einn drengjanna sagði að nokkrir samnemendur hans hafi verið drepnir í árás nígerska flughersins.