Menning

Fyrsti karlinn í fjöl­skyldunni sem hefur ekki átt mótor­hjól

Jakob Bjarnar skrifar
Jónas Reynir á tvímælalaust eina af bókum þessarar vertíðar. Dauði skógar. Vandlega hugsuð og ísmeygileg í þeim skilningi að hún staldrar við í vitund lesandans löngu eftir að lestri er lokið.
Jónas Reynir á tvímælalaust eina af bókum þessarar vertíðar. Dauði skógar. Vandlega hugsuð og ísmeygileg í þeim skilningi að hún staldrar við í vitund lesandans löngu eftir að lestri er lokið. Elín Inga

Ein er sú bók í jólabókaflóðinu sem áhugafólk um bókmenntir ætti alls ekki að láta fram hjá sér fara: Dauði skógar eftir Jónas Reyni Gunnarsson.

Hér er það fullyrt að Jónas Reynir, sem er rétt rúmlega þrítugur, sé einn ef ekki sá efnilegasti rithöfundur sinnar kynslóðar. Dauði skógar er þaulhugsað verk og ísmeygilegt sem situr lengi í manni eftir lestur. Enda er það symbólískt, hinn litli heimur sögumannsins sem er þorp úti á landi, vísar út fyrir sig og er margræð. Skógarspilda sem foreldar hans höfðu plantað í hlíð verður að hrúgu í aurskriðu eftir mikið rigningaveður.

„Þá blasti aurskriðan við okkur. Stórt sár í brekkunni og skógurinn lá í hrúgu fyrir neðan. Upp úr skriðunni stóðu trén eins og gaddar á broddgelti sem búið var að keyra yfir.“ (Bls. 44)

Líkt er og höfundur sé ófreskur í ljósi hinnar miklu rigninga eystra nú og skriðufalla en í ljós kemur að sprengjur úr seinni heimstyrjöldinni hafa legið í jarðveginum. Jónas Reynir er í höfundatali Vísis.

„Ég er 32 ára, verð 33 ára eftir nokkra daga og í sambandi með Elínu Ingu Bragadóttur. Þegar ég var í sumar- og jólafríi frá háskólanámi vann ég í Myndsmiðjunni á Egilsstöðum. Sumarvinnan mín þar á undan var í fiskhausaþurrkuninni Herði. Það er svona það helsta sem ég gerði áður en ég fór að skrifa,“ segir Jónas Reynir þegar blaðamaður Vísis biður hann að segja undan og ofan af sér sjálfum; aldur, húskaparstöðu og fyrri störf.

Frægðarsól Fellabæjar að rísa

Jónas Reynir kennir sig við Fellabæ sem er þorpið gegnt Egilsstöðum við Lagarfljót. Oft er talað um það sem hluta Egilsstaða.

„Já, á tímabili sagðist ég vera frá Egilsstöðum þegar fólk spurði, því ég nennti ekki að útskýra að Fellabær væri til, það þekktu hann svo fáir. En svo ákvað ég að það væri vitleysa. Ég held líka að frægðarsól Fellabæjar fari rísandi. Eiginlega er Fellabær fyrir íslenska menningu eins og Skaginn er fyrir íslenskan fótbolta.“

Það blasir við. En, svona fyrst við erum fyrir austan; heldurðu að þessi austurlenski uppruni hafi áhrif á það hvernig rithöfundur þú ert?

„Ég á erfitt með að greina það sjálfur en eflaust gerir hann það. Kannski hefur það áhrif að alast upp í svona litlu samfélagi. Enginn sem ég þekki að austan talaði nokkurn tíma um að vilja vera rithöfundur og ég gerði það ekki heldur. En ég held að enginn hefði verið hræddur við það heldur, hefði hann borið þann draum í brjósti. Kannski blasir rithöfundastarfið öðruvísi við þeim sem alast upp í miðju listakreðsunnar.“

Vísir náði í skottið á Jónasi Reyni þegar hann var á austurleið. Kominn í Eyjafjörðinn. Jónas ætlar að verja jólum í sínum Fellabæ.Elín Inga

Blaðamaður Vísis notar tækifærið og spyr Jónas hvað það hafi orðið til þess að hann ákveð að fara að skrifa? Þegar krakkar eru spurðir hvað þeir ætli að verða þegar þeir verða stórir þá kannski fótboltamaður, slökkviliðsmaður, sendiherra eða forseti en varla rithöfundur. Það er langt í frá sjálfgefið að fólk vilji leggja það fyrir sig á þessum síðustu og verstu?

„Það er góð spurning sem mér er eiginlega ómögulegt að svara. Ég hef alltaf haft gaman að því að búa eitthvað til og var mikið að teikna og skrifa þegar ég var yngri en þrengdi aldrei fókusinn í það að verða rithöfundur. Og jafnvel eftir að ég kláraði ritlist í háskólanum sá ég ekki endilega fyrir mér að skrifa bækur, ég bjóst frekar við því að skrifa kvikmynda- eða sjónvarpsþáttahandrit. En ég endaði samt í þessu. Kannski er heldur ekki rétt að tala um að fólk „vilji“ leggja þetta fyrir sig heldur þurfi þess, af ástæðum sem eru líklega viðfangsefni sálfræðinga.“

Peningahliðin erfið

Jónas Reynir segist hafa mest verið hjá Rúnari Helga Vignissyni og svo Sigurði heitnum Pálssyni í sínu námi í ritlistinni. Og þá hefur honum væntanlega ekki þótt verra þegar Gauti Kristmannsson líkti tóni Dauða skógar við Útlendinginn eftir Camus?

„Það var gaman að heyra þá tengingu, þótt ég hugsi ekki endilega um það að líkjast einhverjum öðrum þegar ég skrifa.“

Allt frá árinu 2015 hefur Jónas Reynir helgað sig alfarið ritstörfum. Útgáfusaga bóka hans er athyglisverð. Fyrst kom út ljóðabókin Leiðarvísir um þorp 2017, en það ár komu út þrjár bækur eftir hann; ljóðabókin Stór olíuskip og sú þriðja var skáldsagan Millilending. Næsta skáldsaga Jónasar Reynis var Krossfiskar og svo kom ljóðabókin Þvottadagur út 2019. Nú er það Dauði skógar sem nú er tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Allar þessar bækur Jónasar Reynis hafa hlotið góðar viðtökur og viðurkenningar. Enhvernig gengur að hafa í sig og á sem rithöfundur?

„Peningahliðin er mjög erfið. Ég hef kannski verið að ná upp í 160 til 200 þúsund á mánuði. Eina von manns er að ná inn á listamannalaunin sem eru ekki há eða rúmur 200 þúsund kall eftir skatt og það eru margir að berjast um bitann.“

Og hefurðu fengið listamannalaun?

„Ég hef verið á þremur mánuðum undanfarin þrjú ár.“

Gengur ekki að rífast um litlu bitana sem til falla

Þeir sem sitja í nefnd og fást við að úthluta listamannalaunum munu eiga erfitt með að líta fram hjá Jónasi næst, eftir Dauða skógar, þó ómögulegt sé að segja til um hvernig vindarnir blása þar um slóðir og hvaða sjónarmið ráða þar för. Jónas Freyr nefndi fyrr hið forvitnilega fyrirbæri „listakreðsuna“, og þá sem alast upp í miðju hennar; fyrirbæri sem erfitt er að festa fingur á en við vitum öll að er þarna: Hvernig kemur þér það fyrirbæri fyrir sjónir, komandi frá Fellabæ? Er þetta samfélag sem þú vilt tilheyra eða forðast?

„Ég finn til samkenndar með öllu listafólki og rithöfundum. Það er mjög erfitt að búa til listaverk og mjög erfitt að ætla að vinna við að búa til listaverk. 

Þannig að það er engin furða að þessar þjáðu sálir eigi sér sitt samfélag. Við getum sagt að listin sé eins og trú og kreðsan sé eins og kirkjan.

Fyrir þeim trúuðu er trúin auðvitað mikilvægust, ég held það sé fínt að vera ekkert að velta sér of mikið upp úr öllu hinu.“

Víst er að fólk ríður ekki feitum hesti frá því fjárhagslega að leggja ritstörf fyrir sig.Elín Inga

En, í samhengi við listamannalaunin, sem er eiginlega lífsspursmál fyrir þá sem vilja helga sig skrifum, gefur þá ekki augaleið að til þess að eiga möguleika á þeim þurfi að koma sér þar í mjúkinn? Og þá sé hætta á einsleitni, lítilþægni og jafnvel einskonar bönkermentalíteti, spyr blaðamaðurinn og minnir viðmælanda sinn á því að honum hafi ekki verið lofað þægilegu spjalli. Jónas Reynir veltir þessu fyrir sér og segir þá:

„Ég held við séum búin að tapa leiknum ef við erum of mikið að rífast um hvernig bitanum er skipt þegar það blasir við að margfalda þarf mánuðina og hækka launin. Ísland græðir á því að eiga atvinnurithöfunda og það græðir líka á því að flóran sé fjölbreytt. Lausnin er að bæta í sjóðinn, ekki verða samdauna kerfinu eins og það er í dag. Ég sé þetta frekar sem fjárlagavandamál en kreðsuvandamál.“

Óvíst hvar maður hefur sögumanninn

Jónas Reynir verst þessum ágengu spurningum fimlega, verður að segjast. Þannig að tímabært er að spyrja hann nánar út í Dauða skógar. Bygging sögunnar er forvitnileg og þá ekki síður frásagnarhátturinn. Pælir þú mikið í sjónarhorni og stöðu sögumanns?

„Já. Ég hugsa mikið um frásagnarhátt og byggingu en kannski ekki endilega sem aðskilin fyrirbæri frá heildinni. Ég fæ ekki hugmynd að ákveðinni frásagnaraðferð eða byggingu, heldur þróast þetta samhliða öllu öðru: röddinni, atburðarás og svo framvegis. Ég reyni bara að elta innsæið, líkt því að elda eftir hugmynd frekar en uppskrift og vera sífellt að smakka til, sjá fyrir sér lokaafurðina og aðlaga sig að henni jafnóðum.“

Aðalsögupersónan Magnús er jafnframt sögumaður og þannig er erfitt að treysta honum sem slíkum? Hann er ekki alveg hlutlaus?

„Nei, það er mikilvægt að hafa í huga. Við upplifum allt í gegnum síu þessa manns. Sem lesanda finnst mér gott að finna fyrir viðnáminu sem er á milli mín og verksins, og mín og persóna í verkinu. Sérstaklega svona fyrirferðamikilla persóna eins og sögumanns, þegar saga er sögð í fyrstu persónu. Maður lærir á persónur bóka alveg eins og manneskjur. Og kannski veit maður ekki alveg hvar maður hefur þær. En það er líka kitlandi.“

Upplýsandi krot í rissbók

Veröld Magnúsar er sligandi. Fjölskyldulífið er honum raun en Jónas Reyni tekst, að því er virðist nokkuð áreynslulaust að sprengja þessa þrúgandi að því er virðist tilgangslausu tilveru söguhetju sinnar upp með neyðarlegum og ótrúlega fyndnum senum og tilsvörum. Líkindin sem Gauti hefur nefnt við Camus er ekki úr vegi. Níhilismi hans, tilgangsleysi tilverunnar í guðlausum heimi er forsenda absúrdismans. Og eina viðbragðið við því, eins og Beckett sagði, er húmor. Fjölskylduaðstæður Magnúsar eru hreint út sagt óbærilegar. Persónurnar, fyrir utan kannski dótturina, eru fremur ósympatískar: eiginkona og sonur?

„Ég get alveg kvittað undir það. Tilgangsleysi og leitin að merkingu er alltaf undirstaðan hjá mér, hvort sem ég ætla mér það eða ekki. En varðandi ósympatískar persónur þá held ég að þær tengist mikið þessari síu sögumannsins. Eiginkona sögumannsins og sonur hans eru þær persónur sem hann á hvað erfiðast með að tengjast og álit okkar á þeim litast mikið til af því. Eins og þú segir þá má alveg draga það í efa hvort sögumanni sé treystandi að koma öllu rétt til skila, bæði hvað varðar sjálfan sig og aðra. Það er lesandans að leggja það á sig að skilja þessar manneskjur – eða ekki. Hildur, kona sögumannsins, yrði eflaust sympatískari ef hún gæti sagt sína hlið á málinu. En hún fær vídd sem aðrar persónur fá ekki þegar Magnús, sögumaðurinn, kemst í minnisbókina hennar.“

Hildur fær reyndar að tjá sig í bókinni en eftir krókaleiðum; kroti í rissbók. Og það krot segir merkilega mikið.

Dregur ýmislegt úr eigin ævi í verkið

Íslendingar telja sig mikla bókaþjóð en þeir aðhyllast einkum ævisöglega bókmenntafræði. Sem er kannski ekki merkileg og gengur út á að finna persónur í bókum, það er fyrirmyndir þeirra: Jájá, þetta er nú augljóslega hann Guðmundur á Læk. Höfundur átti einmitt leið þar um þegar hann var að vinna verkið. Þetta sjá kunnugir. Eða eitthvað á þá leið. Auðvitað er það svo og óhjákvæmilega að höfundar taka eitt og annað úr umhverfi sínu. Fyrirmynd sögusviðsins er augljóslega Fellabær; það rímar við staðhætti þar. Og því er óhjákvæmilegt annað en spyrja þig hvað þú tekur úr þínu lífi og dregur inn í söguna? Ég geri til dæmis ráð fyrir því að þú hafir átt mótorhjól eins og Magnús?

„Ég er örugglega fyrsti karlmaðurinn í fjölskyldunni (eða föðurættinni) sem hefur ekki átt mótorhjól.“

Skellur.

„Það er samt alveg rétt, maður hikar ekki við að sækja söguefni í veruleikanum, án þess þó að hafa það að markmiði að gera einhverju raunverulegu skil. Mér finnst að bækur hafi alltaf sinn eigin veruleika. 

En við fjölskyldan eigum lítið skógarland rétt fyrir utan Fellabæ og þar varð lítil skriða í einni hlíðinni. Reyndar mun minni heldur en í bókinni. 

Það varð ein stærsta kveikjan að sögunni. Svo er það líka alveg satt að herinn hafi verið með æfingar þarna í sveitunum og ég hef oft velt því fyrir mér hvort það liggi eitthvað eftir þá þarna. Þetta verður undirstaða sögunnar sem ég svo spinn ofan á. Atburðirnir sem eiga sér stað innan fjölskyldunnar, og persónurnar sjálfar, eru skáldskapur en grunntilfinning sem liggur að baki bókarinnar er „sönn“ eða raunveruleg fyrir mér.“

Að sprengja tilgangsleysið upp með húmor

Jónas Reynir er af Instagram-kynslóðinni. Sem á það sameiginlegt að búa við aðsteðjandi og að því er virðist óviðráðanlega ógn. Sem þá elur á einskonar firringu og vangaveltum um tilgang eða tilgangsleysi öllu heldur. Um miðja síðustu öld var það kjarnorkuváin sem hafði afgerandi áhrif á módernismann. Nú er það loftslagsvá, sem er rauður þráður og birtist reyndar í gegnum afstöðu föður Magnúsar; hefurðu pælt í þessari samsvörun? Er loftslagsváin faktor í þessari sögu?

„Hún er það klárlega. Og rétt eins og kjarnorkuváin er hún svo risastór að allt bliknar í samanburði. Mér fannst áhugavert að stilla þessu stóra upp á móti þessu litla – heiminum og þorpinu, Amasónfrumskóginum og skógarlandi Magnúsar. 

Kynslóð Jónasar á það sammerkt með módernistunum um miðbik síðustu aldar að búa við vá sem yfirtekur allt, alla hugsun og vitund. Þá var það kjarnorkuvá en nú er það loftslagsvá.Elín Inga

Maður fórnar höndum þegar maður hugsar út í þessi mál. En það er líka áhugavert hvernig sumu fólki tekst að finna einhverja von og baráttuanda. Það er eitthvað mjög magnað að planta trjám, að finna von í því að horfa marga áratugi fram í tímann.“

Sem svo er sprengt þetta upp með heldur neyðarlegum en kómískum senum. Drónabaukið í bókinni er til að mynda er alveg magnað.

„Þetta kómíska er örugglega fylgifiskur tilgangsleysisins sem þú minntist á áðan, að lífið sé bæði fyndið og tilgangslaust.“

Hvað varstu lengi að vinna að þessari bók?

Ég byrjaði að vinna að bókinni fyrir svona þremur árum. Ég er yfirleitt með nokkur skjöl í gangi í einu.

Þannig að þú ert kominn vel á veg með næstu bók?

„Ég er kominn ágætlega af stað en svo veit maður aldrei hvort verkið heimti að stækka og breytast í eitthvað annað. Þannig það er erfitt að spá fyrir um hvenær ég klára það.“

Kemur á ská inn í bókmenntirnar

Ég held að það hafi verið Roland Barthes sem sagði eitthvað á þá leið að bækur byggi á bókum og þannig sé bókmenntafræðin og umfjöllun um bækur mikilvæg fyrirbæri í þeim þræði sem myndast. Með það í huga verður þessi spurning ekki eins klisjukennd: Hvaða höfundar og þá verk hafa einkum haft áhrif á þig?

„Mér finnst ég koma dálítið á ská inn í bókmenntir og ég hugsa að ég hafi ekki síður orðið fyrir áhrifum frá kvikmyndum. En Kafka verður alltaf stór hjá mér, á tímabili svaf ég nánast með Höllina undir koddanum. Kvikmyndaleikstjórarnir Andrei Tarkovsky og Robert Bresson hafa líka haft mikil áhrif á mig. 

Það er líkt og bókin hafi forspárgildi því í henni er fjallað um mikla rigningartíð, svo mikla að aurskriður falla fyrir austan. Rétt eins og nú er.Elín Inga

Ekki eingöngu sem höfundar heldur listheimspekingar. Þeir voru svo skarpir og greinandi, orðuðu mjög vel sína fagurfræði og töluðu mikið um listgreinina sem þeir unnu í. Manifesto-bækurnar sem þeir skrifuðu hvor um sig eru stórkostlegar.“

Þú hefur verið að fá afar fína dóma fyrir bókina, það væntanlega skiptir máli?

„Já, ég er afar þakklátur og glaður fyrir það. Ekki bara vegna þess að fólk virðist tengja við það sem ég er að gera heldur líka því rithöfundabransinn er erfiður og til að geta unnið við þetta þarf manni að ganga vel. En á sama tíma er mjög and-búddískt við að hugsa of mikið um að fá viðurkenningu frá öðrum. Þeim þorsta verður líklega aldrei svalað.“

Brot úr bókinni

En ef til vill er best, til glöggvunar fyrir þá lesendur Vísis sem enn hafa ekki lesið verkið að sjá brot úr bókinni til að átta sig betur á hvað um ræðir. Með góðfúslegu leyfi útgefanda. Þó hér sé gripið niður þegar langt er komið sögu er brotið valið að teknu tilliti til þess að það steli ekki frá meginþræðinum. Í Dauði skógar er nokkur fjöldi athyglisverðra aukapersóna. Ein þeirra er Haraldur, ekta dreifbýlisspekingur með hausinn fullan af hugmyndum. Haraldur er staddur á Olísstöð þorpsins en sögumaður á Spáni.

Síminn hringir þegar ég er að borga. Ég fatta það ekki fyrr en starfsmaðurinn bendir mér á það. Ég þekki ekki hringinguna, Elín hefur breytt henni. Þetta er Haraldur. Mér finnst skrítið að hann tími að hringja, hann veit að ég er í útlöndum. Ég kveð afgreiðslumanninn og svara.

Jæja, segir Haraldur. Nú eru þeir farnir að hirða mann.

Bíddu nú?

Löggan er að hraðamæla á nesinu. Safna í ferðasjóðinn.

Varstu gómaður?

Ég hélt að gleðigangan væri á eftir mér. Blátt og rautt ljósasjó. Svaka læti. Svo átta ég mig á að þetta er löggan. Þeir ráku mig út í kant, ég var rétt búinn að keyra niður gæsafjölskyldu. Sjötíu þúsund kall, gjörðu svo vel.

Sjötíu þúsund? Hvað varstu á?

Þeir sögðust hafa náð mér á hundrað og fjórum, rukkuðu fyrir hundrað.

Hvílík góðmennska. Og hvað, áttu fyrir þessu?

Haraldur drekkur kaffið sitt. Hann er greinilega í Olís. Situr við gluggann. Ég heyri það á þögninni að augu hans elta einhvern frá bensíndælunni. Einhvern sem hann þekkir ekki, annars hefði hann ekki þagnað. Það er gætni í þessari þögn.

Ég heyri hringlið í bjöllunni þegar dyrnar á sjoppunni opnast.

Ókunnugi maðurinn gengur inn, það hlýtur að vera karlmaður frekar en kona, því annars væri Haraldur byrjaður að tala aftur, og aðeins hærra. Maðurinn gengur hjá og fer að afgreiðsluborðinu. Haraldur kyngir kaffinu og ég finn hvernig augnaráð hans ratar aftur á sinn stað.

Það er von að þú spyrjir. Var að enda við að kaupa þak á skúrinn.

Nú? Ertu ekki nýbúinn að gera hann upp?

Ekki þakið.

Var það orðið slappt?

Hriplekt. Og ónýtur suðurgaflinn.

Hvað segirðu.

Hálf milljón fyrir bárujárnsplötur og nokkrar skrúfur. Önnur hálf fyrir timbrið.

Allt í einu slær það mig hvað það er ótrúlegt að röddin hans Haraldar sé á Spáni. Þessi hrúðurkarl sem yfirgefur aldrei landshlutann sinn (en kann þó kínversku, að eigin sögn) er kominn mörg þúsund kílómetra frá heimahögunum. Aftur hugsa ég um það hvernig í andskotanum hann tími að hringja í mig, þvert yfir heimsálfuna.

Láttu mig fá eina í viðbót, heyri ég hann segja. Hann er greinilega að biðja um aðra pylsu.

Magnús.

Já, ég er hér.

Ég er búinn að láta teikna upp gömlu trésmiðjuna. Ég fékk arkitekt til að teikna hana upp á nýtt. Sjá hvort megi koma þar fyrir ræktun.

Mig vantar sólgleraugun. Ég hef pírt augun alla leiðina frá búðinni. Ég klemmi símann við öxlina og leita. Nenni ekki að stoppa og leggja pokann frá mér.

Hvernig ræktun? Gleraugun eru í rassvasanum. Hættulegasta staðnum, ég myndi brjóta þau ef ég tyllti mér niður. Ég átta mig nú á um hvað símtalið snýst, af hverju hann hefur tímt að hringja.

Matvæli, segir Haraldur.

Hann er að falast eftir fjármagni. Þetta er ein af þessum hugmyndum sem hann fær stundum í kollinn. Hann hefur pínt einhvern vesalings arkitekt til að teikna upp fyrir sig framúrstefnulegt gróðurhús sem hann hefur séð á netinu. Í staðinn hefur hann gert honum greiða, kannski skipt um heddpakkningu í bílnum hans.

Ertu kominn í kálið? spyr ég.

Nei, segir Haraldur. Búfénað.

Í þessum gír er best að leyfa honum að gaspra. Segja svo bara Sjáum til, og bíða eftir að hugmyndin víki fyrir þeirri næstu. Það borgar sig ekki að taka slaginn við Harald þegar hann er í þessum ham.

Þú hefur lesið skýrslu Sameinuðu þjóðanna frá 2013? Um matarskort komandi kynslóða? spyr Haraldur, og veit vel að það hef ég ekki gert. Þar kemur fram að þegar öldin er hálfnuð verða manneskjur á jörðinni níu milljarðar.

Hann tyggur pylsuna á meðan hann talar.

Og ekki stækkar hún með okkur, plánetan. Það fer að vanta pláss. Fer ekkert að vanta pláss, það vantar pláss nú þegar. Ekki bara fyrir fólkið heldur ræktarland sem þarf til að fæða allar skepnurnar sem við borðum. Og menn sjá að þessi griparæktun stendur engan veginn undir sér. Hún er ekki umhverfisvæn.

Ég er farinn að hafa áhyggjur af því að rafhlaðan í símanum springi. Þetta er eins og að tala í straujárn. Símtöl við Harald dragast gjarnan á langinn. Þegar hann biður um fjármagn spyr hann aldrei hreint út. Það er kurteisi að minnast ekki á peningana berum orðum, hann talar frekar um að taka þátt, vera með eða aðstoða.

Ég ætla að rækta krybbur.

Rækta hvað, segirðu?

Krybbur. Litlar engisprettur. Prótínrík kvikindi.

Jahá. Næringin sem fæst á fermetra í svona búi er margfalt meiri en af ræktarlandi í nauta- og sauðfjárrækt. Meira að segja kjúklingaverksmiðjurnar, sem troða þúsundum fugla í sama herbergið, þær standast þessu ekki snúning.

Og rækta þetta þá sem dýrafóður?

Mannafóður.

Nei, hver andskotinn, segi ég.

Lestu skýrsluna, Magnús.

Þú selur ekki pöddur á Íslandi.

Þetta er ekki spurning um það.

Haraldur, segi ég. Þú prentar ekki skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum aftan á pakkann. Þetta eru pöddur.

Við seljum þær ekki heilar. Þær eru muldar í duft. Það er prótínduft í öllum matvælum.

Ég held að þú sannfærir ekki nokkurn mann um að éta þetta, sama í hvaða formi það væri.

Tveir milljarðar manns éta pöddur. Það er tæpur þriðjungur alls fólks á jörðinni. En það er alveg rétt, það þarf að venja fólk við hugmyndina til að byrja með. Menn sjá ekki kramdar krybbur í brauðsneiðinni, þetta er bara duft sem yrði selt til framleiðenda. Seinna meir mun fólk ekki setja þetta fyrir sig. Fólk borðar rækjur og allan andskotann úr sjónum. Barnabörnin þín munu borða steiktar pöddur eins og snakk.

Ég skelli upp úr. Hann segir að honum sé fúlasta alvara. Þetta sé enginn brandari, heldur björgunarhringur fyrir mannkynið.

Þú ert farinn að hljóma eins og pabbi, segi ég, og þá breytir hann um taktík. Segir að framleiðslan stuðli að uppbyggingu á svæðinu. Höfðar til skyldurækni minnar. Gefur í skyn að ég væri að svelta þorpið með því að sleppa þessu. Þegar það vekur ekki viðbrögðin sem hann vonast eftir höfðar hann næst til hégómans. Segir til mikils að vinna að innleiða þessa byltingu. Að mín verði minnst fyrir þetta.

Svo er þetta mjög góð fjárfesting, bætir hann við.

Ég geng yfir götuna í skuggann. Bíll hemlar fyrir mér, ég lyfti hendinni sem heldur á pokanum til að biðjast afsökunar. Þegar Haraldur talar um góðar fjárfestingar finnst mér hann gera mér upp fégræðgi. Ég hef aldrei haft áhuga á peningum. Hann er farinn að fara í taugarnar á mér.

Það er allur andskotinn, heldur Haraldur áfram, sem fólk er að leggja sér til munns sem engum hefði dottið í hug að snerta fyrir nokkrum árum. Og þó að við tveir séum kannski ekki fyrir skordýr hefur það ekkert að segja. Við erum ekki framtíðin. Það eru börnin þín.

Ég ætla nú ekki að þykjast geta spáð fyrir um framtíðina, segi ég. En það þarf helvíti mikið ímyndunarafl til að halda að þetta gangi upp.

Þetta gengur ekki upp, það er heila málið, það er vitað í hvað stefnir. Þess vegna þurfa menn að fara að rækta eitthvað annað.

Ég er að segja að þessi skordýrarækt eigi ekki eftir að ganga upp. Það getur vel verið að svona dæmi henti einhvers staðar í útlöndum en það gerir það ekki heima. Við erum á Íslandi.

Þetta yrði sent út um allan heim, rétt eins og er gert með fiskinn.

Hvaða vit er þá í því að hafa reksturinn heima? Af hverju ekki að rækta þetta í útlöndum, þar sem fólk vill kaupa þetta?

Haraldur segir ástæðuna vera ódýrt vatn og rafmagn, og þylur upp útreikninga um framleiðslugetu, hversu mörgum ræktunarbeðum megi koma fyrir í gömlu trésmiðjunni, hversu langan tíma það tekur krybbur að verða fullvaxta, hversu oft þær verpa á sólarhring, hversu mörg tonn af prótíni sé hægt að framleiða á einum mánuði og svo framvegis.

Skyndilega átta ég mig á því að það er ég sem er að borga fyrir símtalið. Þannig virka símtöl til útlanda með áskriftarleiðinni minni, þau eru á kostnað viðtakandans.

(Bls. 155-160)






Fleiri fréttir

Sjá meira


×