Líklegt er að Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins muni koma saman til að staðfesta ákvörðunina einum eða tveimur dögum síðar.
Ekki er vitað hvenær byrjað verður að bólusetja hér á landi en Íslenska ríkið skrifaði undir samning við Pfizer þann 9. desember síðastliðinn um kaup á 170 þúsund skömmtum, sem munu duga fyrir um 85 þúsund einstaklinga. Stefnt er að því að hefja afhendingu á efninu fyrir lok árs.
Takist sérfræðinganefndinni ekki að afgreiða markaðsleyfið á morgun mun nefndin funda aftur þann 29. desember næstkomandi. Fram kemur á heimasíðu Lyfjastofnunar Evrópu að nefndin hafi það að markmiði að afgreiða umsóknina sem fyrst.
Bóluefni Pfizer og BioNTech, sem ber heitið BNT162b2, er þegar í notkun í Bandaríkjunum, Bretlandi og Kanada.
Í dag hafa tæplega 78 milljón manns greinst smitaðir af kórónuveirunni alþjóðlega og tæplega 1,7 milljónir látist af völdum hennar samkvæmt tölum frá Johns Hopkins háskólanum. Hér á Íslandi hafa 5.642 greinst með veiruna og 28 látist.
Íslensk stjórnvöld þegar tryggt bóluefni fyrir 87 prósent þjóðarinnar
En stjórnvöld hér á landi hafa ekki aðeins undirritað samning við eitt lyfjafyrirtæki um kaup á bóluefni við Covid-19. Þegar hefur Ísland samið við Astra Zeneca og Oxford um kaup á um 230 þúsund skömmtum af bóluefni þeirra og er stefnt að því að byrja að afhenda skammta í Evrópu á fyrsta ársfjórðungi næsta árs.
Þá er álitið að Lyfjastofnun Evrópu gefi út álit um bóluefni Janssen og Johnson & Johnson í febrúar 2021 og stefna íslensk stjórnvöld á að undirrita kaupsamning í síðasta lagi 23. desember næstkomandi um kaup á 235 þúsund skömmtum. Áætlað er að dreifing á því bóluefni hefjist á þriðja ársfjórðungi næsta árs.
Íslensk stjórnvöld hafa því þegar tryggt bóluefni sem dugir fyrir 87 prósent þjóðarinnar í gegn um samstarf Evrópuþjóða með samningum Evrópusambandsins. Samningarnir þrír, við Pfizer, Astra Zeneca og Janssen, tryggja bóluefni fyrir rúmlega 317 þúsund einstaklinga.
Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar Íslands, sagði í samtali við fréttastofu RÚV fyrr í kvöld að hún reikni með að sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu komist að niðurstöðu um bóluefni Pfizer og BioNTech um hádegisbil á morgun. Hún reikni ekki með því að fundurinn verði langur. Búið sé að fara yfir öll helstu ágreiningsefni um bóluefnið.