Innlent

Lögðu hald á hnífa og fíkniefni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þjófnaðir og umferðareftirlit er fyrirferðarmikið í dagbók lögreglu þennan morguninn.
Þjófnaðir og umferðareftirlit er fyrirferðarmikið í dagbók lögreglu þennan morguninn. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði ökumann laust eftir miðnætti í nótt sem grunaður var um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Að því er segir í dagbók lögreglu var maðurinn handtekinn og fluttur á lögreglustöð en hann reyndist einnig sviptur ökuréttindum.

Í bílnum fundust meint fíkniefni og hnífar auk þess sem farþegi var með fíkniefni og hníf á sér. Lagði lögreglan hald á fíkniefnin og hnífana og var ökumanninum sleppt að lokinni sýnatöku.

Upp úr klukkan hálftvö í nótt var síðan annar ökumaður stöðvaður við umferðareftirlit. Hann reyndist sviptur ökuréttindum ásamt því að vera undir áhrifum fíkniefna.

Bíllinn var á stolnum skráningarmerkjum og þá reyndust ökumaður og farþegi eftirlýst vegna annarra mála. Voru þau bæði vistuð í fangageymslu.

Um kvöldmatarleytið í gær var svo tvisvar tilkynnt um þjófnað úr matvöruverslun í Grafarvogi. Í báðum tilfellum voru gerendur á unglingsaldri og voru málin afgreidd með aðkomu foreldra.

Þá var tilkynnt um líkamsárás í Árbæ um klukkan hálfníu í gærkvöldi. Lögreglumenn ræddu við málsaðila að því er segir í dagbók lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×