Enski boltinn

Norsk knattspyrnukona fékk COVID-19 og fær ekki að koma heim um jólin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cecilie Redisch Kvamme þarf að halda jólin í einangrun og kemst ekki heim til Noregs.
Cecilie Redisch Kvamme þarf að halda jólin í einangrun og kemst ekki heim til Noregs. Getty/Bradley Collyer

Þetta er ekki góður tími til að smitast af kórónuveirunni ekki síst fyrir atvinnuíþróttamenn sem ætluðu að nýta jólafríið til að hitta fjölskylduna.

Hópsmit hjá kvennaliði West Ham hefur þær afleiðingar að leikmenn liðsins geta ekki haldið jólin hátíðleg með sínum fjölskyldum.

Norska knattspyrnukonan Cecilie Redisch Kvamme ætlaði að fara heim til Noregs yfir jólin en ekkert verður af því. Nettavisen segir meðal annars frá þessu.

Cecilie Redisch Kvamme er 25 ára gömul og spilar venjulega sem bakvörður. Hún hefur verið hjá West Ham frá árinu 2019 og á að baki þrjá landsleiki fyrir Noreg.

„Ég var með hausverk fyrir prófið og grunaði þetta. Nú er ég með kvef og stíflað nef,“ sagði Cecilie Redisch Kvamme við blaðamann Bergensavisen úr einangruninni í London.

Kvamme ætlaði að fljúga heim til Noregs í dag Þorláksmessu en ekkert verður nú af því. Það er styttra að fara fyrir hina liðsfélaga sína og einhverjar líkur á að þeir geti eitthvað verið með sínum fjölskyldum þegar líður á hátíðina. Fyrir Kvamme verða þetta mjög hversdagsleg jól.

„Þetta verður því bara ósköp venjulegur fimmtudagur hjá mér. Ég hef samt sent foreldrum mínum skýr fyrirmæli að þau verði að setja aftur upp jólatréð í maí þegar ég kem heim í sumarfrí í maí. Svo munum við borða saman jólakjöt þá,“ sagði Kvamme.

Það þurfti að fresta síðasta leik West Ham liðsins fyrir jól vegna hópsmitsins en hann átti að vera á móti Aston Villa um helgina. Fyrsti leikur liðsins eftir jól verður síðan 9. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×