Á fundinum voru næstu skref rædd og hvernig haga skyldi aðgerðum yfir jólin.
Samkvæmt tilkynningu frá almannavörnum segir að ákveðið hafi verið að skipulagðar hreinsunaraðgerðir muni hefjast þann 27. desember.
Rýming í hluta Seyðisfjarðar var endurskoðuð í gær og fleiri íbúum gert kleift að snúa til síns heima. Kort yfir rýmingarsvæðið sem gefið var út í gær gildir að minnsta kosti til 27. desember.
„Íbúar sem eiga húseignir innan rýmingarsvæðis geta gefið sig fram í Ferjuhúsinu í dag og fengið fylgd í húsin til þess að sækja nauðsynjar eða annað lauslegt sem þeir vilja hafa yfir jólin. Þetta er sama fyrirkomulag og hefur verið síðustu daga og má búast við að hægt verði að gera þetta fram að myrkri í dag,“ segir í tilkynningu almannavarna.
Eftir að myrkra tekur í dag verður ekki leyfilegt að fara inn á rýmingarsvæðið vegna óhagstæðrar veðurspár. Gert er ráð fyrir hlýnun upp að átta gráðum og gæti snjór farið að bráðna í fjöllum.
Talið er að það gæti rasskað þeim stöðugleika sem hafi myndast á skriðusárunum og að búast megi við hreyfingu á svæðinu.
Staðan verður endurmetin af Veðurstofunni þegar það kólnar aftur og rýmingarkortið verður endurskoðað þann 27.