Fjöldi fólks slasaðist og að minnsta kosti tuttugu alvarlega. Fólk er þá ennþá fast undir húsarústum borgarinnar Petrinju en upptök skjálftans voru rétt utan við norðvesturhluta hennar.
Herinn, björgunarsveitir og lögregla hafa verið við leit og björgun úr rústunum í dag.
Petrinja er rétt suðaustur af höfuðborginni Zagreb en skjálftinn fannst vel í borginni sem og hátt í tólf nærliggjandi löndum. Hann varð einnig til þess að Slóvenar fundu sig knúna til að slökkva á kjarnorkuveri sínu til að gæta varúðar.
Í dag hafa slasaðir verið sóttir með herþyrlu og fluttir til höfuðborgarinnar til aðhlynningar. Tomislav Fabijanic, yfirlæknir, segir að margir hinna slösuðu hafi hlotið beinbrot eða slæman heilahristing. Þá hafi nokkrir þurft á aðgerð að halda. Lögreglustjórinn í Petrinja sagði í ávarpi síðdegis að forgangsverkefnið væri að bjarga mannslífum.