Enski boltinn

Rashford: Væri heimskulegt að fara að hugsa um titilinn núna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcus Rashford fagnar hér sigurmarki sínu fyrir Manchester United á móti Wolverhampton Wanderers á Old Trafford í gærkvöldi.
Marcus Rashford fagnar hér sigurmarki sínu fyrir Manchester United á móti Wolverhampton Wanderers á Old Trafford í gærkvöldi. AP/Michael Regan

Manchester United er aðeins tveimur stigum á eftir toppliði Liverpool þökk sé dramatísku sigurmarki frá Marcus Rashford í gærkvöldi.

Það þarf að fara alla leið aftur til ógleymanlegs mark Michael Owen á móti Manchester City árið 2009 til að finna sigurmark hjá Manchester United sem var skorað seinna en sigurmark Marcus Rashford í gær.

Desembermánuður byrjaði ekki vel hjá Manchester United sem datt út úr Meistaradeildinni eftir tapleiki á móti Paris Saint-Germain og RB Leipzig. Það er miklu léttara yfir öllu á Old Trafford eftir góðar vikur að undanförnu.

Marcus Rashford skoraði sigurmark Manchester United á móti Úlfunum í gær í uppbótartíma og fyrir vikið er liðið komið alla leið upp í annað sæti ensku úrvalsdeildarinnar og farið að setja pressu á topplið Liverpool. Liverpool er með tveggja stiga forskot og spilar í kvöld en United á líka leik inni og hafa þau því spilað jafnmarga leiki.

Rashford var með engar stórar yfirlýsingar eftir leik þrátt fyrir dramatískan sigur og stökk upp töfluna.

Rashford sagði að það væri „heimskulegt“ að ætla að fara að huga um enska titilinn núna.

„Við megum ekki horfa of langt fram í tímann. Við erum lið sem er enn að vinna mikið í sínum málum og það væri heimskulegt að fara að horfa á stigatöfluna þegar svona lítið er búið af tímabilinu,“ sagði Marcus Rashford.

„Við verðum að taka einn leik í einu og ef við höldum áfram að finna leiðir til að vinna eins og við gerðum í kvöld þá munum við bara sjá hvar verið endum í vor,“ sagði Rashford.

Marcus Rashford hefur skorað 6 mörk og lagt upp önnur sjö í fjórtán leijum í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

Hann skoraði ekki í fimm deildarleikjum í röð í október og nóvember og var aðeins með tvö mörk í fyrstu níu leikjum sínum í deildinni. Rashford er aftur á móti búinn að skora fjögur mörk í síðustu fjórum leikjum sínum.

Markið í gær var líka mjög langþráð mark fyrir hann á heimavelli. Rashford var nefnilega búinn að spila í 845 mínútur án þess að skora deildarmark á Old Trafford eða síðan á móti Southampton í júlímánuði síðastliðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×