Enski boltinn

Mourinho færði Reguilón mat um jólin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
José Mourinho hugsar vel um leikmennina sína.
José Mourinho hugsar vel um leikmennina sína. getty/Lindsey Parnaby

José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham, keypti mat handa Sergio Reguilón, leikmanni liðsins, fyrir jólin.

„Hann vissi að ég yrði einn á jólunum. Þegar ég kom á æfingu klukkan þrjú á jóladag var kassi á mínum stað í búningsklefanum. Í honum var svínakjöt sem búið var að elda,“ sagði Reguilón.

„Hann sagði að ég þyrfti ekki að elda og ætti bara að hugsa um að borða nóg. Hann gerir alls konar svona hluti sem sjást ekki opinberlega en eru mikilvægir.“

Mourinho virðist reyndar hafa gaman að því að gefa Reguilón að borða. Eftir sigur Tottenham á Manchester City í lok nóvember keypti Portúgalinn kjötlæri handa spænska bakverðinum. Það kostaði hann 500 pund, eða níutíu þúsund íslenskar krónur.

Strákarnir hans Mourinhos áttu að taka á móti Fulham í fyrri leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni en honum var frestað vegna kórónuveirusmita í herbúðum Fulham.

Tottenham er í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 26 stig. Liðið er án sigurs í síðustu fjórum deildarleikjum sínum.

Reguilón kom til Tottenham frá Real Madrid í haust og hefur leikið vel á sínu fyrsta tímabili á Englandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×