Erlent

Einn al­ræmdasti rað­morðingi Banda­ríkjanna látinn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Myndir af Samuel Little teknar á lögreglustöðvum víðsvegar um Bandaríkin í gegnum árin.
Myndir af Samuel Little teknar á lögreglustöðvum víðsvegar um Bandaríkin í gegnum árin. Vísir/Getty

Samuel Little, einn alræmdasti raðmorðingi Bandaríkjanna, lést í gær á sjúkrahúsi í Kaliforníu. Little játaði á sig yfir níutíu morð víðsvegar um Bandaríkin og var dæmdur í margfalt lífstíðarfangelsi.

Little var áttræður en dánarorsök hefur ekki verið gerð opinber. Þó hefur verið gefið út að hann hafi verið veikur um nokkurt skeið.

Little hlaut þrjá lífstíðardóma fyrir morð á þremur konum í Los Angeles-sýslu á níunda áratug síðustu aldar og var að afplána þá þegar hann lést. Hann var ekki dæmdur fyrir morð fyrr en árið 2014.

Alls játaði Little á sig morð á 93 konum víðsvegar um Bandaríkin, sem hann sagðist hafa framið milli 1970 og 2005. Bandaríska alríkislögreglan, FBI, hefur sagt játningar Little trúanlegar og metur hann „skæðasta“ raðmorðingja í sögu Bandaríkjanna.

Little herjaði á konur á jaðri samfélagsins en fórnarlömb hans voru mörg vændiskonur og fíklar. Hann er í mörgum tilvikum talinn hafa kyrkt konurnar og skildi ekki eftir sig sýnilega áverka. Mörg andlátanna voru því í fyrstu ekki talin hafa borið að með saknæmum hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×