Íslendingar sem voru í sóttkví á herspítala í Víetnam vegna gruns um að hafa smitast af kórónuveirunni létu eins og beljur að vorin þegar þeir voru látnir lausir á sunnudag að sögn einnar úr hópnum. Dvölin hafi líkst fangelsisvist.
Eftir tíu daga í Víetnam var fjórum Íslendingum skipað að fara í sóttkví á herspítala eftir að smit hafði komið upp í báti sem þau höfðu ferðast í.
„Við fórum þarna fyrst því við áttum að fara í heilsutékk svo keyrir maður inn um hliðið á herstöðinni en svo fær maður ekkert að fara út aftur,“ segir Þóra Valný Yngvadóttir.
Þetta hafi verið aðferðin til að ná ferðamönnum inn á spítalann. Hermenn sem unnu á spítalanum hafi lítið kunnað til verka.
„Þetta var mjög gömul bygging og baðherbergin voru mjög óásjáleg og það var fastur skítur í öllu.“
Mjög heitt á spítalanum, enginn loftræsting og yfir 35 stiga hiti úti.
„Það voru rimlar fyrir gluggum og svo er múrveggur þarna með gaddavírsgirðingu sem jók á innilokunarkenndina.“
Maturinn hafi verið ólystugur og aðeins ein klósettrúlla í boði sem duga átti í 14 daga.
„Það gekk ekki alveg eftir þannig að við fengum klósettpappír frá ferðaskrifstofunni,“ segir Þóra.
Þrátt fyrir allt hafi dvöl þeirra verið bærileg enda í góðra vina hópi. Þau hafi verið í góðu sambandi við ræðismanninn i Víetnam. Síðast liðinn sunnudag fengu þau loks þær fréttir að þau mættu fara heim, eftir sjö daga á herspítalanum.
„Það var eins og beljur á vorin, við vorum hlaupandi fram og til baka.“
Fjórmenningarnir komu til Íslands í gær, þau hafa ekki fundið fyrir einkennum en nú eru liðnir 14 dagar síðan þau voru á bátnum. Þau hafa ekki fengið upplýsingar frá yfirvöldum um stöðu sína en hafa haldið sig heima.
„Við höfum reynt að ná í sóttvarnalækni í morgun og höldum áfram að reyna.“