Innlent

Þingmenn hvetja allir til allsherjar samstöðu

Heimir Már Pétursson skrifar
Frá Alþingi í morgun.
Frá Alþingi í morgun. Vísir/vilhelm

Mikil samstaða var meðal þingmanna stjórnar og stjórnarandstöðu í morgun um að allir standi saman að því að grípa til nauðsynlegra aðgerða í efnahags- og heilbrigðismálum til að vinna gegn áhrifum kórónuveirunnar á samfélagið.

Í umræðum um störf þingsins á Alþingi í morgun áréttuðu allir þeir sem til máls tóku mikilvægi þess að allir flokkar á þingi ynnu saman að þeim stóru verkefnum sem framundan eru vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

„Þetta eru aðstæður sem við verðum að takast á við. Þess vegna erum við komin í þær aðstæður nú að við getum ekki talað um mig og þig, ég og þú, heldur eru það við öll sem erum í þessum aðstæðum,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson formaður þingflokks Flokks fólksins.

„Höfum það í huga að allir eru að reyna að gera sitt besta, ríkisstjórn og þing. Kennarar taka á sig gríðarlegt álag til að sinna menntun barna okkar í þessu ástandi. Fjölskyldur eru í gríðarlegu dagskrár púsluspili. Þar sem það er næstum full vinna að fylgjast með öllum tilkynningum um skipulag skóla og vinnu,“ sagði Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata.

„Ég vil nota tækifærið og þakka velferðarnefnd fyrir góða umfjöllun og mikla vinnu við málið. Það var einhugum um að koma þessu máli sem fyrst í gegn. Með stuðningi ríkisstjórnarinnar náðist fram ítarlegri og öflugri aðgerðir en af stað var farið með,“ sagði Halla Signý Kristjánsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins.

„Afleiðingarnar verða á borði stjórnmálanna. Þess vegna þarf að mynda samstöðu um hvað beri að gera. Ella er hætta á að ofan á allt annað bætist erfiðar pólitískar þrætur sem munu ekki bæta ástandið,“ sagði Jón Steindór Valdimarsson þingmaður Viðreisnar.

„Almenningur er að taka á sig í þúsunda tali að vera í sóttkví. Til að vernda samborgarana. Til að tryggja að útbreiðsla faraldurins verði hæægari en hún yrði ella,“ sagði Ólafur Þór Gunnarsson þingmaður Vinstri grænna.

„Það sem við gerum í stöðunni nú hefur áhrif á hvernig samfélagið verður í stakk búið til að rétta úr kútnum eftir að faraldurinn hefur gengið yfir. Og það segir líka til um hvernig samfélagið mun þróast til lengri tíma,“ sagði Oddný G. Harðardóttir þingflokksformaður Samfylkingarinnar.

„Það er ekki sjálfgefið að við verðum öll sammála um niðurstöðuna í öllum málum. En á meðan við getum rætt hlutina málefnalega, meðan við getum unnið með vönduðum hætti að úrlausn þeirra viðfangsefna sem að okkur snúa er það gríðarlega mikilvægt,“ sagði Birgir Ármannsson þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.

„Við eigum að byrja á því að veita öllum greiðsluskjól. Bæði heimilum og fyrirtækjum strax. Við þurfum að gera það strax. Ef það vantar einhverjar útfærslur þá vinnum við úr þeim eftirá,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson þingflokksformaður Miðflokksins.

„Það þarf að ná samningum strax við hjúkrunarfræðinga. En í kvöld ætlum við að fara út í dyragætt, út á svalir klukkan sjö og klappa fyrir heilbrigðisstarfsfólkinu okkar,“ sagði Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata.


Tengdar fréttir

Alþingi komið á neyðaráætlun

Starfsáætlun Alþingis hefur í fyrsta sinn verið tekin úr sambandi til að þingið geti hugað að einungis einu máli; aðgerðum vegna kórónuveirunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×