Genesis-boðsmótið í golfi hófst í gær en þar eru mættir til leiks flestir bestu kylfingar heims. Tiger Woods byrjaði með látum en náði ekki alveg að fylgja því eftir.
Tiger fékk örn á fyrstu holu og sýndi oft mögnuð tilþrif. Hann kom svo í hús á 69 höggum eða tveimur höggum undir pari. Það setur hann í 17.-33. sæti.
Matt Kuchar leiðir mótið á sjö höggum undir pari eða þremur höggum á undan næstu mönnum.
Efsti maður heimslistans, Rory McIlroy, er á þremur höggum undir pari. Pakkinn er mjög þéttur og verður áhugavert að fylgjast með mótinu í kvöld.
Bein útsending frá mótinu hefst klukkan 19.00 á Stöð 2 Golf.

