Erlent

Sánchez hyggst slaka á út­göngu­banni barna

Atli Ísleifsson skrifar
Þrýst hefur verið á Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, að heimila börnum að fara út.
Þrýst hefur verið á Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, að heimila börnum að fara út. Vísir/Getty

Börn og ungmenni á Spáni hafa þurft að halda kyrru fyrir á heimilum sínum allt frá 14. mars, en forsætisráðherrann Pedro Sánchez hefur nú tilkynnt að slakað verði á reglum þann 27. apríl til að börnin „geti fengið smá ferskt loft“.

Spánarstjórn hefur gripið til harðra aðgerða til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar, en veiran hefur leikið Spánverja sérstaklega grátt. Greint var frá því í gær að skráð dauðsföll sem rakin eru til Covid-19 í landinu séu nú fleiri en 20 þúsund. Skráð smit í landinu eru nú rúmlega 200 þúsund.

BBC segir frá því að borgarstjóri Barcelona, Ada Colau, sem á sjálf ung börn, hafi biðlað til Spánarstjórnar að heimila börnum að fara út.

Sánchez ávarpaði þjóð sína í gær þar sem hann sagði það versta að baki en að enn væri nokkuð í landi. Sagðist hann munu biðja þing landsins að framlengja neyðarástandið til 9. maí. Ekki væri rétt að eiga á hættu að missa tökin og glata þeim árangri sem hafi náðst með því að taka fljótfærar ákvarðanir.

Enn verða takmarkanir á ferðum í gildi, en síðustu vikur hefur fullorðnum verið heimilt að yfirgefa heimili sín til að fara í matvöruverslanir eða apótek. Börnum hefur hins vegar alfarið verið óheimilt að fara að heiman.


Tengdar fréttir

Rúm­lega 20 þúsund nú látnir á Spáni

Alls voru skráð 565 dauðsföll af völdum Covid-19 á Spáni síðasta sólarhringinn. Er fjöldinn nokkru lægri en á sólarhringnum þar á undan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×