Enski boltinn

Bruno Fernandes var farinn að ógna meti Gylfa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki með Swansea City vorið 2012 en til hægri er Bruno Fernandes að fagna marki með Manchester United.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki með Swansea City vorið 2012 en til hægri er Bruno Fernandes að fagna marki með Manchester United. Samsett/Getty

Bruno Fernandes hefur byrjað frábærlega með liði Manchester United eftir að enska félagið keypti hann í janúar frá Sporting Lissabon. Svo vel að hann var farinn að ógna athyglisverðu meti sem Gylfi Þór Sigurðsson deilir.

Innkoma Gylfa Þórs Sigurðssonar í ensku úrvalsdeildina tímabilið 2011 til 2012 var nefnilega söguleg. Hann eignaðist þá metið yfir að eiga þátt í flestum mörkum í ensku úrvalsdeildinni á einu tímabili þegar leikmaðurinn kemur ekki til liðsins fyrr en í janúar.

Swansea fékk Gylfa að láni í janúar 2012 frá þýska félaginu Hoffenheim og Gylfi kláraði tímabilið með velska félaginu. Gylfi átti þátt í tíu mörkum í átján leikjum fram á vor. Gylfi skoraði sjö mörk og fékk skráðar þrjár stoðsendingar.

Gylfi lagði upp mark í fyrsta leik og var síðan bæði með mark og stoðsendingu í 2-1 sigri á West Brom. Gylfi var síðan með tvö mörk í leikjum á móti Wigan og Fulham í marsmánuði og var á endanum kosinn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar í mars 2012.

Gylfi átti þetta met einn þar til að Juan Mata kom til Manchester United frá Chelsea á miðju 2013-14 tímabilinu. Mata átti þá þátt í tíu mörkum í fimmtán leikjum með United, skoraði sex mörk sjálfur en gaf einnig fjórar stoðsendingar.

Bruno Fernandes var á góðri leið með að ná þeim félögum því hann var búinn að koma að fimm mörkum í fyrstu fimm deildarleikjum sínum með Manchester United og liðið á enn níu leiki eftir. Bruno var síðan valinn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar í febrúar og er orðinn algjör hetja á Old Trafford.

Nú er að sjá hvort að enska úrvalsdeildin verði kláruð í sumar og hvort að Portúgalinn verði þá áfram í sama formi. Bruno Fernandes hefur i það minnsta möguleika á að jafna eða bæta met Gylfa og Mata haldi hann áfram á sömu braut.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×