Fótbolti

Ronaldinho spurði eftir Eiði Smára eins og Haukur í Coca Cola-auglýsingunni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
„Má Eiður koma út að leika?“
„Má Eiður koma út að leika?“

Eiður Smári Guðjohnsen segist ekki hafa verið í miklu sambandi við Brasilíumanninn Ronaldinho á undanförnum árum. Þeir léku saman hjá Barcelona á árunum 2006-08.

Ronaldinho er núna í fangelsi í Paragvæ þar sem hann fagnaði fertugsafmæli sínu á dögunum. Eiður frétti hins vegar af því að Ronaldinho hefði spurt eftir sér í Barcelona fyrir nokkru síðan.

„Það eru nokkrir mánuðir síðan við áttum eitt sms eða spjall. Ég vissi svo af því að hann hafi spurt eftir mér eins og í gamla daga. Komið að húsinu sem við áttum heima í Barcelona og kannað hvort ég væri þar,“ sagði Eiður við Ríkharð Óskar Guðnason í Sportinu í kvöld.

Klippa: Sportið í kvöld: Ronaldinho spurði eftir Eiði Smára

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem spurt er eftir Eiði eftir að hann komst á fullorðinsaldur.

Haukur Baldvinsson, þá á fermingaraldri, bankaði nefnilega upp á hjá Guðjohnsen-feðgunum og spurði eftir Eiði í auglýsingu fyrir Coca Cola fyrir 16 árum síðan.

„Má Eiður koma út að leika?“ spurði Haukur Arnór Guðjohnsen sem kom til dyra. Hann gaf syni sínum leyfi til að fara út og leika við Hauk, svo lengi sem hann kæmi heim fyrir kvöldmat.

Eiður og Haukur léku listir sínar með kókboltann út um alla borg. Eiður gat hins vegar ekki komið út að leika daginn eftir því hann þurfti að spila í Meistaradeild Evrópu. Auglýsinguna má sjá hér fyrir neðan.

Haukur var í stóru hlutverki hjá Breiðabliki þegar liðið varð Íslandsmeistari í fyrsta og eina sinn árið 2010. Hann varð einnig bikarmeistari með Fram þremur árum síðar.

Sportið í kvöld er á dagskrá Stöðvar 2 Sports á þriðjudags-, miðvikudags- og fimmtudagskvöldum klukkan 20.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.


Tengdar fréttir

Ronaldinho handtekinn með falsað vegabréf í Paragvæ

Brasilíski fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Ronaldinho framvísaði fölsuðum paragvæskum skilríkjum þegar hann kom inn í landið í gær. Hann og bróðir hans voru stöðvaðir af lögreglu en voru ekki handteknir, að sögn paragvæskra yfirvalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×