Leiðtogar risaveldanna Kína og Bandaríkjanna ræddu saman á símafundi í nótt þar sem faraldur kórónuveiru var að sjálfsögðu aðal umræðuefnið.
Kínverjar hafa verið óhressir með Donald Trump Bandaríkjaforseta sem ítrekað hefur kallað kórónuveiruna Kínaveiruna, en hún átti upptök sín í Wuhan í Kína.
Trump sagði á Twitter-síðu sinni í nótt að Kínverjar og Bandaríkjamenn væru í miklu samstarfi vegna málsins og að á milli ríkjanna ríki gagnkvæm virðing.
Just finished a very good conversation with President Xi of China. Discussed in great detail the CoronaVirus that is ravaging large parts of our Planet. China has been through much & has developed a strong understanding of the Virus. We are working closely together. Much respect!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) March 27, 2020
Kínverskir miðlar taka í svipaðan streng og hafa eftir Xi Jinping leiðtoga Kínverja að samsarf sé afar mikilvægt. Þá staðhæfir hann að Kínverjar hafi aldrei farið í grafgötur með útbreiðslu veirunnar, líkt og sumir á vesturlöndum hafa gagnrýnt þá fyrir.
Þá segir Xi að Kínverjar séu nú í hjálparstarfi víða um heim til að aðstoða þau ríki sem eigi í mesum vanda. Hann mun einnig hafa sagt Trump forseta að Bandaríkjamönnum standi slík aðstoð einnig til boða.
Ferðamannastaðir í kínversku höfuðborginni Peking voru opnaðir á ný í gær þar sem kórónuveirutilfellum hefur fækkað verulega síðustu vikur. Borgarbúar létu sjá sig utandyra eftir mikla inniveru og skoðuðu meðal annars kirsuberjatré í einum af almenningsgörðum borgarinnar. Mun færri er þó hleypt inn í garðinn nú, eins og aðra ferðamannastaði, en áður en veiran greindist fyrst.
Og við þetta er að bæta að um leið og Kínverjar virðast vera að rétta úr kútnum þá óttast þeir mjög að ný smit skjóti upp kollinum utanfrá og því hafa þeir tekið þá ákvörðun að banna öll ferðalög útlendinga til landsins og á það einnig við fólk sem þegar hefur ferða- eða landvistarleyfi í landinu. Í gær greindust aðeins fimmtíu og fimm smit í öllu Kína og voru fimmtíu og fjögur þeirra svokölluð utanlandssmit.