Perúmaðurinn Nolberto Solano gerði garðinn frægan í ensku úrvalsdeildinni um og eftir aldamót, lengst af með Newcastle en hann lék einnig með West Ham og Aston Villa.
Hann hefur þjálfað í heimalandinu síðan hann hætti sjálfur að spila og er nú í starfi sem aðstoðarþjálfari hjá landsliði Perú.
Covid-19 faraldurinn hefur gert vart við sig í Suður Ameríku eins og annars staðar í heiminum og hefur smitum fjölgað ört á undanförnum vikum. Í Perú hefur verið brugðið á það ráð að setja á algjört útgöngubann eftir klukkan 8 á kvöldin.
Hart er tekið á þeim sem ekki virða útgöngubannið og því fékk Solano að kynnast þar sem hann var handtekinn á leið heim úr matarboði.
„Ég sé auðvitað eftir þessu og biðst afsökunar. Ég ætla ekki að reyna að réttlæta þetta. Þetta er erfitt ástand en það sem skiptir mestu máli er heilsan okkar,“ sagði Solano.
„Þeir sem mig þekkja vita að ég hef gert mitt besta í að fylgja reglum. Þetta var ekki partý. Þetta var matarboð sem nágrannar okkar fjölskyldunnar buðu okkur í. Það stóð of lengi en það voru ekki fleiri en sex manns þar,“ sagði Solano en honum var sleppt fljótt úr haldi lögreglu.
Erfiðlega hefur gengið að fá Perúbúa til að virða útgöngubannið en síðan það var sett í gildi hafa 18 þúsund manns verið handteknir fyrir að virða ekki bannið.
Fótbolti