Erlent

Boko Haram birta nýtt myndband af Chibok-stúlkunum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Skjáskot úr myndbandinu.
Skjáskot úr myndbandinu.
Hryðjuverkasamtökin Boko Haram hafa birt nýtt myndband þar sem um 50 Chibok-stúlkur sjást en samtökin rændu hátt 276 stúlkum úr skóla í bænum Chibok í Nígeríu í apríl 2014.

Í myndbandinu sjást stúlkurnar fyrir aftan liðsmann Boko Haram sem krefst þess að liðsmönnum hryðjuverkasamtakanna sem eru í haldi verði sleppt í skiptum fyrir stúlkurnar, en 219 stúlkur eru enn í haldi Boko Haram.

Þetta er þriðja myndbandið þar sem talið er að stúlkurnar birtist í en í því sést einn liðsmaður samtakanna taka viðtal við eina stúlkuna. Hún segist heita Maida Yakubu og kveðst vera frá Chibok.

Í viðtalinu er hún hvött af hryðjuverkamanninum til þess að krefjast þess af ríkisstjórn Nígeríu að liðsmönnum Boko Haram verði sleppt.

„Það sem ég get sagt er að foreldrar okkar ættu að vera hugrakkir. Talið við ríkisstjórnina svo við getum farið heim,“ segir stúlkan.



Ein stúlknanna sem sést í bakgrunninum er með barn í fanginu, að því er fram kemur á vef BBC, en óttast er að margar stúlknanna hafi sætt kynferðislegu ofbeldi af hálfu liðsmanna Boko Haram og hafi verið neyddar til þess að giftast þeim

Boko Haram hefur síðastliðin ár háð blóðuga baráttu í norðurhluta Nígeríu. Þau eru í dag nátengd hryðjuverkasamtökunum ISIS en Boko Haram berjast fyrir sjálfstæðu ríki múslima í Nígeríu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×